Spænski miðjumaðurinn Rodri fékk Gullboltann afhentan fyrir að vera kjörinn sem besti fótboltamaður heims fyrir síðustu leiktíð, þar sem hann vann bæði Englandsmeistarartitilinn með Manchester City og Evrópumótið með spænska landsliðinu.
Vinícius Júnior endaði í öðru sæti í kjörinu við mikla óánægju Real Madrid fjölskyldunnar. Madrídingar mættu ekki á verðlaunahátíð Ballon d'Or vegna þess að leikmaður frá þeim hlaut ekki verðlaunin.
„Real Madrid er ekki mitt félag, ég er ekkert að spá í þessu. Ég er einbeittur að mínu fólki, mínu félagi, minni fjölskyldu. Real Madrid og Vinicius hafa sínar ástæður," sagði Rodri þegar hann var spurður út í fjarveru Madrídinga af hátíðinni.
„Í þeirra sporum hefði ég líklega ekki gert það sama... en það þýðir ekki neitt. Fólk tekur sínar eigin ákvarðanir."
Rodri fór um víðan völl í viðtölum eftir að hafa unnið Gullboltann, en hann sleit krossband fyrr í haust og er því meiddur næstu mánuðina. Hann ræddi meðal annars um framgang Barcelona í spænsku deildinni.
„Við erum allir hissa þegar við horfum á Barca á þessu tímabili, þeir líta út fyrir að vera lið sem getur afrekað stórkostlega hluti. Það er gaman að horfa á Barca spila undir stjórn Hansi Flick.
„Ég er mjög ánægður að sjá hvað eru margir spænskir leikmenn að skína hjá Barcelona."
Athugasemdir