Það fóru níu leikir fram í undankeppni Afríkukeppninnar í gær þar sem Victor Osimhen bjargaði stigi fyrir Nígeríu á útivelli gegn Benín.
Það mátti finna Kelechi Iheanacho, Wilfried Ndidi, Ademola Lookman, Calvin Bassey og fleiri stjörnur í byrjunarliði Nígeríu en lesendur þekkja líklega ekki marga leikmenn úr liði Benín að undanskildum Steve Mounié, fyrirliða, sem lék með Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni fyrir sex árum síðan.
Leikurinn var þó jafn og urðu lokatölur 1-1, en Nígeríu nægði stig til að tryggja sér toppsæti riðilsins. Benín er í góðri stöðu fyrir lokaumferðina og nægir jafntefli gegn Líbíu til að tryggja sér sæti í Afríkukeppninni.
Sadio Mané, Nicolas Jackson, Ismaila Sarr og fleiri öflugir leikmenn voru þá í byrjunarliði Senegal sem sigraði á erfiðum útivelli gegn Búrkína Fasó.
Í byrjunarliði heimamanna mátti finna Edmond Tapsoba, Issa Kaboré og Lassina Traoré, en Bertrand Traoré er ekki í hóp að sinni.
Senegal vann nauman 0-1 sigur þar sem Habib Diarra, leikmaður Strasbourg, skoraði eina mark leiksins eftir stoðsendingu frá Pape Gueye, leikmanni Villarreal.
Báðar þjóðir eru búnar að tryggja sér þátttökurétt í Afríkukeppninni og var þessi innbyrðisslagur í gærkvöldi úrslitaleikur um fyrsta sæti riðilsins.
Riyad Mahrez var þá í byrjunarliði Alsír ásamt Rayan Aït-Nouri, Ramy Bensebaini og SaÏd Benrahma í markalausu jafntefli gegn Miðbaugs-Gíneu. Báðar þjóðir eru búnar að tryggja sig áfram í lokamótið.
Geoffrey Kondogbia og félagar í Mið-Afríkulýðveldinu eru dottnir úr leik eftir óvænt tap gegn Lesótó
Túnis er þá einnig komið áfram í lokamótið ásamt Úganda, Suður-Afríku, Marokkó, Egyptalandi, Angóla, Fílabeinsströndinni, Austur-Kongó og Kamerún meðal annars.
Það munu 24 þjóðar taka þátt í Afríkukeppninni á næsta ári.
Athugasemdir