Það áttu afar óvænt úrslit sér stað í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM 2026 í nótt, þegar heimsmeistarar Argentínu kíktu í heimsókn til Paragvæ.
Lautaro Martínez kom gestunum yfir eftir stoðsendingu frá Enzo Fernández snemma leiks en Antonio Sanabria, framherji Torino, jafnaði metin skömmu síðar.
Staðan var 1-1 eftir jafnan fyrri hálfleik og tóku heimamenn forystuna í upphafi síðari hálfleiks, þegar Omar Alderete skoraði eftir undirbúning frá Diego Gómez samherja Lionel Messi hjá Inter Miami.
Messi lék allan leikinn en tókst ekki að láta til sín taka. Argentína átti í miklum vandræðum með að skapa sér færi og tapaði að lokum 2-1 eftir slaka frammistöðu.
Argentína er áfram á toppi undandeildarinnar með 22 stig eftir 11 umferðir, á meðan Paragvæ er búið að bæta stöðu sína í síðasta sætinu sem veitir beinan þátttökurétt á HM. Paragvæ er í sjötta sæti með 16 stig - fjórum stigum meira en næstu lið fyrir neðan.
Ekvador er einnig með 16 stig eftir öruggan sigur gegn tíu leikmönnum Bólivíu. José Sagredo var skúrkurinn í liði Bólivíu þar sem hann fékk beint rautt spjald á 24. mínútu fyrir að verja boltann með hendi innan vítateigs. Hinn þaulreyndi Enner Valencia skoraði úr vítaspyrnunni og lagði svo upp skömmu síðar fyrir Gonzalo Plata, áður en Valencia setti boltann aftur í netið en markið dæmt ógilt vegna rangstöðu eftir athugun í VAR herberginu.
Valencia lagði aftur upp fyrir Plata í síðari hálfleik og innsiglaði Alan Minda sigurinn með fjórða og síðasta marki leiksins.
Paragvæ 2 - 1 Argentína
0-1 Lautaro Martinez ('11)
1-1 Antonio Sanabria ('19)
2-1 Omar Alderete ('47)
Ekvador 4 - 0 Bólivía
1-0 Enner Valencia ('26, víti)
2-0 Gonzalo Plata ('28)
3-0 Gonzalo Plata ('49)
4-0 Alan Minda ('61)
Rautt spjald: Jose Sagredo, Bólivía ('24)
Athugasemdir