Ein stærstu félagaskiptin í Bestu deild kvenna þennan veturinn voru skipti Katie Cousins til Þróttar. Hún er mætt aftur í Laugardalinn eftir að hafa leikið þar sumrin 2021 og 2023 við frábæran orðstír.
Hún lék með Val í fyrra og var einn besti leikmaður Íslandsmótsins, en er núna mætt aftur í Þrótt. Það er merki um metnaðinn sem Þróttur er að sýna.
Hún lék með Val í fyrra og var einn besti leikmaður Íslandsmótsins, en er núna mætt aftur í Þrótt. Það er merki um metnaðinn sem Þróttur er að sýna.
„Það er ekki hægt að segja nei við leikmanni eins og henni," sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, í Niðurtalningunni. Álfhildur þekkir vel að spila með Katie og veit hversu góð hún er.
„Hún er eins og allir vita frábær leikmaður, einn besti leikmaðurinn sem hefur spilað í þessari deild, og svo er hún ekki síðri karakter. Hún er ótrúlega góður liðsfélagi og Óla finnst mjög merkilegt hvað hún er auðmjúk. Hún er þannig."
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, tekur undir þetta.
„Katie þurfti að taka eitt ár í burtu annars staðar til að sjá hvað er gott að vera í Þrótti. Ég lá mikið í henni haustið sem ég tók við en henni fannst freistingin að fara í Val vera mikil. En það er gott að hún sá að sér og kom til okkar. Hún er gríðarlega góður leikmaður. Það líkar engum illa við hana. Hún kemur með einhverja áru sem er holl fyrir svona hóp," segir Ólafur.
„Hún er ekki of góð til að hlusta eða taka við leiðbeiningum en hefur alveg sínar skoðanir. Ég var síðast í gær að segja við hana að hún mætti alveg taka meira til sín, ekki vera of auðmjúk. Ég vona að hún taki það til sín. Svona leikmaður lyftir hinum upp á annað plan," segir þjálfarinn.
Hægt er að hlusta á alla Niðurtalninguna í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir