„Við erum mjög ánægðir með leikinn hjá leikmönnunum, mjög stemmdar í gær í undirbúningi fyrir leikinn og mér fannst þær bara útfæra leikinn mjög vel,” sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals eftir sigurinn á Kópavogsvelli í kvöld og Valur eru meistarar meistaranna.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 1 Valur
„Það komu svona kaflar þar sem við vorum ofan á, kafli í byrjun seinni hálfleik sem við vorum undir en við unnum okkur út úr því þannig þetta var bara fínt."
Leikurinn í kvöld var frekar bragðdaufur og lítið um alvöru færi í leiknum í kvöld.
„Þetta eru jöfn lið og ákveðin stöðubarátta í leiknum og hann fer ekki af stað fyrr en markið er komið."
„Við erum mjög sáttir með mest allt. Hvernig við útfærðum hann og hvernig leikmennirnir spiluðu hann. Við fundum það bara strax og leikurinn byrjaði að við vorum að spila mjög vel, mér fannst fyrstu 10 mínúturnar mjög góðar."
Breiðablik sótti mikið síðustu mínútur en Kristján var ánægður með hvernig liðið varðist í kvöld.
„Blikarnir stækkuðu völlinn mjög vel og það var alveg erfitt fyrir okkur að hlaupa það en það tókst og við fengum þarna nokkrar skyndisóknir sem hefðu geta gefið okkur mark og það hefði verið mjög gott að setja eitt í viðbót til að róa okkur aðeins niður."
Nánar var rætt við Kristján Guðmundsson í viðtalinu hér að ofan.