Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Mainoo - Milan vill Mitchell - Phillips gæti snúið aftur til Leeds
   þri 17. desember 2024 15:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hafnarfjarðarbær sendi langt bréf og krefst svara frá FH
Hér sést í Skessuna, sem er knatthús FH.
Hér sést í Skessuna, sem er knatthús FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Halldórsson, formaður FH.
Viðar Halldórsson, formaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hafnarfjarðarbær sendi seint í síðasta mánuði bréf sem stílað er á Fimleikafélag Hafnarfjarðar, knattspyrnudeild FH, aðalstjórn FH, Viðar Halldórsson og Best Hús ehf. Bréfið tengist kostnaði við byggingu Skessunnar, knatthúss FH, sem vígt var síðla árs 2019.

Fótbolti.net hefur bréfið undir höndum en í því óskar Hafnarfjarðarbær eftir svörum við 18 spurningaliðum í kjölfarið á skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Deloitte gerði.

Fram kemur á Vísi að bærinn hafi fengið Deloitte til að fara ofan í saumana á meðferð FH við fjármuni er Skessan var byggð. Þetta hafi verið gert þar sem félagið er að reyna að fá bæinn til að kaupa Skessuna vegna þungrar fjárhagsstöðu.

Í bréfinu sem Hafnarfjarðarbær sendi á FH er krafist svara við ýmsum spurningum sem tengjast kostnaði við Skessuna.

Er þar meðal annars spurt um skuld við knattspyrnudeild sem bókfærður var sem byggingarkostnaður og hvort aðalstjórn hafi samþykkt þær færslur. Þá er líka spurt um 61,35 milljónir króna sem Viðar Halldórsson, formaður FH, fékk fyrir „stjórnun byggingarframkvæmda". Ekki var gert ráð fyrir umræddum greiðslum í áætlun eða í samkomulagi við sveitarfélagið.

Þá er jafnframt spurt út í samninga við Best Hús ehf. sem er í eigu Jóns Rúnars Halldórssonar, formanns knattspyrnudeildar FH til 2019, og bróður Viðars. Félag hans er stærsti einstaki þjónustuaðilinn við framkvæmd Skessunnar en burðarvirki hússins var flutt í gegnum félagið. Vísir tekur saman að greiðslur til tveggja fyrirtækja Jóns Rúnars og til Viðars hafi numið um fjörutíu prósentum af heildarkostnaði við framkvæmdina á Skessunni.

Þetta eru alls 18 spurningar sem bærinn vill fá frekari svör við um framkvæmd Skessunnar og kostnaðinn við hana, og skiptist hver spurning í nokkra liði.

Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs og verðandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir við Vísi að einhver gögn hafa borist bænum síðan þetta langa bréf var sent en Hafnarfjarðarbær er að vinna að samkomulagi við FH um kaup á Skessunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner