Skoski vinstri bakvörðurinn Kieran Tierney er á förum frá Arsenal en félagið ákvað að nýta ekki ákvæði um að framlengja samning hans um eitt ár. Þetta segir David Ornstein hjá Athletic í kvöld.
Tierney, sem er 27 ára gamall, spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í 3-2 sigri Arsenal á Crystal Palace í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.
Samningur Tierney rennur út eftir tímabilið en Arsenal átti möguleika á að framlengja samninginn um eitt ár en hefur kosið að nýta hann ekki.
Hann má byrja að ræða við önnur félög í janúar og segir Athletic ágætis möguleika á því að hann fari frá félaginu í janúarglugganum.
Tierney kom til Arsenal frá Celtic árið 2019 fyrir 25 milljónir punda. Skotinn lofaði góðu og byrjaði meðal annars úrslitaleikinn er Arsenal vann enska bikarinn árið 2020.
Hann framlengdi samning sinn árið 2021 en meiddist síðan alvarlega á hné í mars sem hélt honum frá keppni næstu mánuði á eftir.
Arsenal fékk Oleksandr Zinchenko frá Manchester City um sumarið sem varð síðan númer eitt í vinstri bakverðinum hjá Arteta.
Á síðasta tímabili spilaði TIerney á láni hjá Real Sociedad og fór síðan með Skotum á Evrópumótið. Þar meiddist hann aftan í læri en þau meiðsli héldu honum frá keppni í byrjun leiktíðar og sneri hann ekki aftur á æfingar fyrr en í lok nóvember.
Athugasemdir