Anna Rakel Pétursdóttir hefur framlengt samning sinn við Val út tímabilið 2026.
Anna Rakel er 26 ára en hún er uppalin hjá KA og lék með Þór/KA til 2018 þegar hún hélt út í atvinnumennsku og lék með Linköping og Uppsala í Svíþjóð.
Hún snéri aftur heim og skrifaði undir hjá Val. Hún hefur spilað á Hlíðarenda undanfarin fjögur tímabil. Hún lék sem bakvörður og miðjumaður í liðinu í sumar en Valur varð bikarmeistari. Hún hefur leikið 186 KSÍ leiki og skorað í þeim 26 mörk.
Hún á sjö A-landsleiki að baki.
„Mjög ánægð með að hafa framlengt við Önnu Rakel enda teljum við hana vera eina af okkar mikilvægustu leikmönnum. Það er fullt af ungum og efnilegum stelpum hjá okkur sem þurfa jákvæða leiðtoga til þess að hjálpa sér að verða enn betri. Anna Rakel er ein af þessum leiðtogum,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.