„Dómarinn sagði við mig 'passaðu þig að fá ekki gult spjald fyrir að hlaupa í áttina að þeim'. Þeir eru blóðheitir og við þurfum að passa okkur," sagði Ísak Bergmann Jóhannesson við Fótbolta.net eftir sigurinn í Svartfjallalandi í gær.
Ísak skoraði seinna mark leiksins og gerði þá sama og Orri Steinn Óskarsson gerði eftir fyrra markið, hljóp að stúkunni með hörðustu stuðningsmönnum heimamanna og fagnaði markinu við litla hrifningu heimamanna sem létu kveikjurum og glerflöskum rigna yfir þá.
„Þetta var alveg óvart, ég vissi ekki hvar ég var, svo áttaði ég mig á að ég hljóp til þeirra og dómarinn rak okkur í burtu. Arnór Ingvi fékk eitthvað í sig þegar við fögnuðum fyrsta markinu og við þurftum að passa okkur," sagði Ísak.
Myndir af því þegar aðskotahlutir fljúga yfir strákana má sjá hér að neðan en Arnór Ingvi sést þar bjarga því að glerflaska fari í leikmenn Íslands.
Íslenska liðið er nú komið til Cardiff í Wales þar sem það mætir heimamönnum á þriðjudagskvöld.
Athugasemdir