Arnór Gauti Ragnarsson er búinn að gera þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt Aftureldingu eftir að Mosfellingar tryggðu sér langþráð sæti í Bestu deild karla í september.
Arnór Gauti hefur verið einn af mikilvægari leikmönnum Aftureldingar á síðustu árum en var lengi að koma sér í gang í sumar þar sem hann var að ná sér af meiðslum.
Hann á 24 mörk í 58 leikjum með Aftureldingu í Lengjudeildinni en hefur einnig spilað fyrir Fylki, Breiðablik, ÍBV og Selfoss á ferlinum.
Arnór býr yfir góðri reynslu úr efstu deild karla og hefur ákveðið að taka slaginn þar með uppeldisfélaginu. Hann á 7 mörk í 68 leikjum í efstu deild en hann var markakongur hjá Aftureldingu 2021 og næstmarkahæstur 2023.
„Afturelding fagnar því að Arnór Gauti hafi framlengt samning sinn og spennandi verður að sjá hann taka slaginn í Bestu deildinni í Mosfellsbæ," segir meðal annars í tilkynningu frá félaginu.
Athugasemdir