Ísak Bergmann Jóhannesson minnti Age Hareide þjálfara Íslands rækilega á sig eftir að hafa séð lítið af mínútum í undanförnum leikjum þegar hann kom inn í 2-0 sigrinum á Svartfjallalandi í kvöld. Ísak sem kom inn á 68. mínútu leiksins spilaði afbragðsmínútur og kom inn af krafti og var verðlaunaður með marki á lokaandartökum leiksins er hann kom Íslandi í 2-0. Fótbolti.net tók Ísak tali að leik loknum.
Lestu um leikinn: Svartfjallaland 0 - 2 Ísland
„Geggjaður sigur í svolítið skrýtnum leik. Leikurinn var svolítið physical og mikið af stöðubaráttum en bara geggjað að ná að klára þetta og halda hreinu og eiga úrslitaleik gegn Wales í næsta leik.“
Nýtti reiðina yfir fáum mínútum til góðs
Ísak sen kom af bekknum líkt og fyrr segir kom af bekknum átti góða innkomu líkt og Mikael Egill Ellertsson sem kom inn á sama tíma.
„Við komum með kraft og orku inn af bekknum. Maður nýtti sér það að vera pínu reiður að hafa fengið að spila minna upp á síðkastið og nýtti það á góðan hátt með að koma inn af krafti og skora mjög flott mark. “
Þegar Ísak var spurður nánar út í hvort hann hefði verið pirraður á því að sitja á bekknum svaraði hann.
„Ég er búinn að vera að fá lítið af mínútum upp á síðkastið og finnst ég vera að standa mig vel úti í Þýskalandi, En svona er þetta bara í landsliðinu og maður er ungur ennþá. Það eru flottir leikmenn á miðjunni hjá okkur í Stefáni, Arnóri og Jóa þannig að maður skilur þetta svo sem. En þegar maður er að standa sig úti í Þýskalandi þá finnst manni maður eiga skilið fleiri mínútur. Þá þarf maður bara að sýna sig hér með landsliðinu og taka þær mínútur sem maður fær og gera það besta úr því.“
Ekkert betra en að skora með landsliðinu
Gleði Ísaks þegar hann skoraði var einlæg og naut hann augnabliksins í botn.
„Það er svolítið langt síðan ég skoraði síðast með landsliðinu eða um tvö ár, Það toppar ekkert að skora með landsliðinu sem er ótrúleg tilfinning og á allt öðrum stalli en í félagsliðabolta. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa tilfinningunni að skora fyrir landsliðið svo já þetta var mjög gaman.“
Sagði Ísak en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir