Mikel Arteta er staddur í Los Angeles þessa dagana þar sem hann nýtir landsleikjahléið til að funda með Stan og Josh Kroenke, eigendum Arsenal, og öðrum stjórnendum.
Fundirnir snúast að stórum hluta um framhald félagsins eftir að Edu sagði upp sem yfirmaður fótboltamála til að starfa fyrir Evangelos Marinakis, eiganda Nottingham Forest, Olympiakos og Rio Ave.
Arsenal liggur ekki á að finna eftirmann fyrir Edu heldur liggur megináherslan í því að finna réttan mann fyrir starfið. Menn á borð við Tim Steidten, hjá West Ham, og Roberto Olebas, hjá Real Sociedad, hafa verið nefndir til sögunnar.
Jason Ayto, fyrrum aðstoðarmaður Edu, hefur stigið upp til að sinna starfinu eftir að Brasilíumaðurinn sagði upp. Hann er einnig talinn eiga möguleika á að fá starfið til framtíðar.
Stjórnendurnir munu einnig funda um áform Arsenal í næstu félagaskiptagluggum, þar sem það eru aðeins sex vikur í að janúarglugginn opnast.
Talið er ólíklegt að Arsenal kaupi inn leikmann í janúar ef enginn meiðist alvarlega.
Athugasemdir