Guardiola áfram hjá Man City - Man Utd vill fá Goretzka - Davies til Real Madrid?
   lau 16. nóvember 2024 14:57
Brynjar Ingi Erluson
Sædís skoraði í Íslendingaslag - Hafrún og Ingibjörg höfðu betur gegn Emilíu
Sædís Rún var mögnuð er Vålerenga vann norsku deildina
Sædís Rún var mögnuð er Vålerenga vann norsku deildina
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslenska landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir var á skotskónum er Vålerenga og Lilleström gerðu 1-1 jafntefli í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Sædís var í byrjunarliði Vålerenga á meðan Ásdís Karen Halldórsdóttir byrjaði hjá Lilleström.

Gestirnir í Lilleström komust yfir snemma leiks en undir lok leiksins jafnaði Sædís eftir stoðsendingu frá Karinu Sævik.

Þetta var fjórða mark Sædísar fyrir Vålerenga í deildinni og lagði hún þá upp sex á sínu fyrsta tímabili.

Vålerenga varð norskur meistari með 73 stig, fimmtán stigum meira en Brann.

Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliði Rosenborg sem vann 1-0 sigur á Roa. Rosenborg hafnaði í 3. sæti deildarinnar með 46 stig.

Danska liðið Bröndby vann góðan 3-0 sigur á toppliði Nordsjælland.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir byrjuðu hjá Bröndby á meðan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var í liði Nordsjælland.

Tap Nordsjælland þýðir að Fortuna Hjörring er komið á toppinn á markatölu. Bröndby er á meðan í 3. sæti með 24 stig, sex stigum frá toppliðunum tveimur.

Diljá Ýr Zomers og stöllur hennar í Leuven unnu 2-0 sigur á Westerlo í belgísku úrvalsdeildinni. Diljá byrjaði á bekknum hjá Leuven sem er á toppnum með 25 stig.

Dagný Brynjarsdóttir kom þá inn af bekknum hjá West Ham sem tapaði fyrir Brighton, 3-2, í ensku WSL-deildinni. María Þórisdóttir var ekki með Brighton í dag. Brighton er í 3. sæti með 16 stig en West Ham með 5 stig í 9. sæti.

Þá spilaði Sveindís Jane Jónsdóttir síðari hálfleikinn er Wolfsburg lagði Potsdam að velli, 3-1, í þýsku deildinni. Wolfsburg er á toppnum með 25 stig og með fimm stiga forystu á Eintracht Frankfurt, Bayern München og Bayer Leverkusen.
Athugasemdir
banner
banner