Írland, lærisveinar Heimis Hallgrímssonar, töpuðu stórt gegn Englandi í lokaleik Þjóðadeildarinnar í kvöld.
Liðið spilaði mjög vel í fyrri hálfleik en það fór allt í vaskinn þegar Liam Scales fékk sitt annað gula spjald og England fékk vítaspyrnu. England skoraði þrjú mörk á fimm mínútna kafla og gerði út um leikinn.
„Þetta var sex mínútna brjálæði. Að missa boltann er eitt en að bregðast ekki við því er annað, fáum svo á okkur mark og missum leikmann af velli. Það var mikið áfall, vorum 1-0 undir og fáum strax annað mark á okkur. Við misstum hausinn og það var engin leið til baka og við gáfumst eiginlega upp," sagði Heimir.
Heimi fannst full hart að gefa Scales rautt spjald.
„Það er í lagi að dæma víti en mér finnst þetta ekki vera gult spjald. Þeir fá forskot að fá vítaspyrnu svo það var óþarfi að gefa seinna gula spjaldið. Svona gerist og því miður fyrir okkur breytti þetta algjörlega gangi leiksins og þetta var erfitt," sagði Heimir.