Fótboltasamband Rúmeníu hafnar alfarið þeim ásökunum um að stuðningsmenn hafi sungið níðsöngva og verið ógnandi í garð leikmanna Kósóvó í leik þjóðanna í Þjóðadeildinni í Búkarest í gær.
Leikmenn Kósóvó gengu af velli þegar lítið var eftir af leiknum en þeim misbauð hegðun stuðningsmanna Rúmeníu sem áttu að hafa sungið níðsöngva og verið með fordóma í garð þjóðarinnar.
Staðan var markalaus þegar leikmenn gengu af velli og snéru þeir ekki aftur á völlinn. Leikurinn var því flautaður af en siðanefnd UEFA mun nú rannsaka málið og taka ákvörðun um úrslit leiksins.
Fótboltasamband Kósóvó segir að fulltrúar á vegum fótboltasambands Rúmeníu hafi veist að leikmanni Kósóvó eftir leikinn og þegar blaðamannafundur átti að hefjast hafi fulltrúinn skipað blaðamönnum að yfirgefa svæðið.
Rúmenar hafa svarað fyrir sig og segja ekkert til í þessum ásökunum á hendur stuðningsmanna Rúmeníu.
Þeir kalla ákvörðun leikmanna Kósóvó leikþátt og að stuðningsmenn hafi ekki sungið níðsöngva eða verið með fordóma í garð Kósóvó.
Einnig minnti sambandið á ákvörðun aganefndar á síðasta ári þegar Rúmenía vann 2-0 sigur á Kósóvó. Sá leikur var stöðvaður á 18. mínútu þar sem stuðningsmenn sungu „Kósóvó er Serbía“. Rúmenska fótboltasambandið fékk sekt og þurfti að spila næsta heimaleik án stuðningsmanna.
UEFA komst að þeirri niðurstöðu að þessi slagorð væru ekki rasísk og því hafi ekki verið hægt að virkja hið hefðbundna þriggja skrefa ferli. Fulltrúi UEFA átti að hafa ítrekað þennan punkt á tæknilegum fundi fyrir leikinn.
Rúmenska sambandið telur að leikmenn Kósóvó hafi tekið ákvörðun um að yfirgefa völlinn þar sem staðan var markalaus en Kósóvó þurfti sigur til þess að eiga möguleika á að vinna riðilinn.
Staðan í riðlinum er þannig að Rúmenía er á toppnum með 12 stig en Kósóvó í öðru sæti með 9 stig. UEFA á síðan eftir að taka ákvörðun varðandi úrslitin í leik gærdagsins.
UEFA er með málið til rannsóknar og mun niðurstaða liggja fyrir á næstu tveimur vikum.
Athugasemdir