Guardiola áfram hjá Man City - Man Utd vill fá Goretzka - Davies til Real Madrid?
   lau 16. nóvember 2024 17:55
Ívan Guðjón Baldursson
Annar sigur í röð hjá AB - Jason og Jón Daði byrjuðu
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Wrexham
AB Copenhagen mætti til leiks í þriðju efstu deild danska boltans í dag og skóp dýrmætan sigur gegn Thisted FC.

Aðeins eitt stig skildi liðin að fyrir viðureignina en lærisveinar Jóhannesar Karls Guðjónssonar unnu góðan sigur eftir að hafa komist í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik.

Viðureignin var afar fjörug og tókst heimamönnum í Thisted að minnka muninn niður í eitt mark á 78. mínútu, en lokatölur urðu 2-4 fyrir AB.

Þetta er annar sigurinn í röð hjá AB eftir slaka byrjun á tímabilinu, en liðið er komið með 21 stig eftir 16 umferðir.

Ægir Jarl Jónasson og Ágúst Eðvald Hlynsson eru á mála hjá félaginu en voru ekki í hóp í dag.

Jason Daði Svanþórsson var þá í byrjunarliðinu hjá Grimsby sem heimsótti Newport County í League Two deildinni á Englandi.

Jason fékk að spila fyrri hálfleikinn en var skipt af velli í leikhlé í markalausu jafntefli.

Grimsby er í sjöunda sæti deildarinnar eftir þetta jafntefli, með 25 stig eftir 16 umferðir. Liðið er í baráttu um að komast upp í League One deildina.

Jón Daði Böðvarsson var að lokum í byrjunarliði Wrexham sem tapaði toppbaráttuslag á útivelli gegn Stockport County.

Wrexham leikur í League One deildinni og er þar í þriðja sæti eftir tapið, með 28 stig eftir 15 umferðir.

Jón Daði spilaði fyrstu 63 mínúturnar áður en honum var skipt af velli.

Thisted FC 2 - 4 AB Copenhagen

Newport 0 - 0 Grimsby

Stockport 1 - 0 Wrexham

Athugasemdir
banner
banner
banner