Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
banner
   fös 20. desember 2024 09:21
Elvar Geir Magnússon
Hvernig gat Barcelona látið hann fara?
Marc Guiu fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Marc Guiu fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Mynd: EPA
Guiu skoraði sigurmark Barcelona gegn Bilbao í fyrra.
Guiu skoraði sigurmark Barcelona gegn Bilbao í fyrra.
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Hinn átján ára gamli Marc Guiu skoraði þrennu þegar Chelsea vann 5-1 sigur gegn Shamrock Rovers í Sambandsdeildinni í gær. Chelsea endaði í efsta sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

Spænski unglingalandsliðsmaðurinn sýndi gæði sín en hann kom til Chelsea frá Barcelona síðasta sumar.

Minnir á Luis Suarez
„Þetta var kvöldið hans Guiu. Hvernig gat Barcelona látið hann fara. Þessi strákur gæti verið orðinn fullmótuð 'nía' eftir tvö ár. Ég tel að Barcelona hafi gert mistök," segir Joe Cole, fyrrum leikmaður Chelsea.

„Þetta var eðlislægt hjá honum. Hann minnir mig á Luis Suarez. Ég er ekki að segja að hann sé Suarez núna en hann er með þessa tilfinningu og hugrekki. Pressan hans var mögnuð og strákurinn getur skorað mörk. Hann getur orðið stórstjarna hjá félaginu."

Með nef fyrir mörkum
Guiu hirti fyrirsagnirnar í október á síðasta ári þegar hann kom inn af bekknum og skoraði sigurmark Barcelona gegn Athletic Bilbao. Hann átti eftir að spila sex leikjum meira það tímabilið.

„Marc Guiu kann að klára færin. Hann er ekki leikmaður með ótrúlega hæfileika einn gegn einum, sem getur leikið sér að andstæðingum. Hann er öðruvísi leikmaður en er framúrskarandi í sinni stöðu. Hann er með nef fyrir mörkum," sagði Albert Capellas, sem starfaði í akademíu Barcelona, við Sky Sports fyrr á þessu ári.

Barcelona reyndi að fjarlægja 5 milljóna punda riftunarákvæði í samningi Guiu með því að bjóða honum framlengingu. En Chelsea nýtti sér ákvæðið í júní og krækti í þennan spennandi leikmann.

Guiu kom inn af bekknum gegn Manchester City í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en hefur ekki spilað deildarleik síðan. Hvenær fær hann aftur tækifæri í deildinni?

„Hann er smá óheppinn að Nicolas Jackson og Christopher Nkunku eru að spila svona vel. Þegar þú ert 'nía' og önnur 'nía' er að gera vel þá er mikilvægt að leggja mikið á sig á hverjum degi, þá mun tækifærið koma," segir Enzo Maresca, stjóri Chelsea.
Athugasemdir
banner
banner
banner