Tottenham vann svakalegan fótboltaleik gegn Manchester United í gærkvöldi til að tryggja sér sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins.
Ange Postecoglou þjálfari Tottenham var kátur eftir sjö marka leik á Tottenham Hotspur leikvanginum og spurði hvort fólk hafi ekki örugglega mætt á svæðið til þess að skemmta sér.
„Við vorum við fullkomna stjórn en gerðum sjálfum okkur erfitt fyrir með að gefa þeim tvö mörk. Við sýndum hversu sterkan persónuleika við erum með og skoruðum fjórða markið," sagði Postecoglou.
„Þetta var frábær skemmtun fyrir áhorfendur. Er ykkur ekki skemmt? Ég get ímyndað mér að fótboltasérfræðingarnir í stúdíóinu ykkar (Sky) séu í krísu eftir þennan leik. Það var ekki mikið um taktík hjá okkur, það vantar líka svo mikið af leikmönnum í vörnina. Við vorum með börn á bekknum. Ef við komumst í gegnum þennan kafla tímabilsins getum við stækkað mjög mikið sem liðsheild.
„Ég er ánægður með hvernig strákarnir spiluðu í kvöld. Auðvitað er ýmislegt sem við þurfum að bæta við okkar leik en hugarfarið er ekki eitt af því. Ég elska hugarfarið sem strákarnir eru með. Við erum ekki að mæta í leiki til þess að sigra þá naumlega 1-0. Við viljum spila skemmtilegan og aðlaðandi fótbolta, við viljum skemmta fólkinu. Það þýðir samt ekki að við eigum að vera að gefa andstæðingum okkar mörk."
Athugasemdir