City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
   fös 20. desember 2024 00:01
Elvar Geir Magnússon
„Þvílík skömm“ - Íslendingaliðið fær útreið í belgísku pressunni
Andri Lucas í leiknum gegn Larne.
Andri Lucas í leiknum gegn Larne.
Mynd: Getty Images
Arnar Þór Viðarsson er íþróttastjóri Gent.
Arnar Þór Viðarsson er íþróttastjóri Gent.
Mynd: EPA
Belgískir fjölmiðlar spara ekki gífuryrðin um frammistöðu Gent sem tapaði mjög óvænt 1-0 fyrir Larne frá Norður-Írlandi í lokaumferð Sambandsdeildarinnar.

Gent hefði með sigri komist beint í 16-liða úrslit keppninnar en þarf nú að fara í umspil þar sem liðið mætir mjög sterkum andstæðingi, Betis frá Spáni eða Heidenheim frá Þýskalandi.

Larne hafði tapað öllum leikjum sínum til þessa og aldrei fengið stig í Evrópukeppni áður en kom að leiknum í kvöld. Þetta var sögulegur sigur fyrir Norður-írskan fótbolta.

„Þvílík skömm!" skrifaði voetbalnieuws og talar um mikla niðurlægingu fyrir belgískan fótbolta. Voetbalprimeur segir Gent hafa tapað gegn lélegasta liði Evrópukeppnanna.

„Ég hef aldrei séð okkur svona lélega. Ég er hreinlega orðlaus," sagði Wouter Vrancken, þjálfari Gent eftir leikinn og var ekki með neinar afsakanir.

Arnar kom Andra til varnar
Landsliðssóknarmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen lék í sókn Gent og fékk 5 í einkunn í Niewsblad. Hann var með einkunnahærri leikmönnum Gent en margir fengu 3 eða 4.

Andri, sem er á sínu fyrsta tímabili í belgísku deildinni, er að ganga í gegnum markaþurrð, er kominn með tvö deildarmörk og hefur ekki skorað síðan í lok september. Andri hefur fengið gagnrýni en Arnar Þór Viðarsson, sem er íþróttastjóri Gent, kom honum til varnar í belgískum fjölmiðlum.

„Menn bjuggust vissulega við meira framlagi frá Andra en ég veit hvað hann getur. Ef hann er með sjálfstraust og fær tækifæri þá skorar hann. Hann þarf auðvitað að sýna það. Hvort sem það verður á þessu tímabili eða næsta þá kemur tímapunktur þar sem hann springur út," sagði Arnar og líkti Andra við Kasper Dolberg, leikmann Anderlecht og danska landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner