Aron Jóhannsson skrifaði nýverið undir nýjan samning við Val. Áður en hann skrifaði undir þá var talað um áhuga Breiðabliks en Valur hafnaði tilboði Blika í miðjumanninn öfluga. Talað hefur verið um að tilboðið hafi hljóðað upp á tvær milljónir króna.
Eftir að tilboðinu var hafnað þá sagði Hjörvar Hafliðason frá því í hlaðvarpi sínu Dr Football að Aroni líkaði ekki lífið vel á Hlíðarenda. Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV tjáði sig einnig um málið í hlaðvarpinu og sagði:
Eftir að tilboðinu var hafnað þá sagði Hjörvar Hafliðason frá því í hlaðvarpi sínu Dr Football að Aroni líkaði ekki lífið vel á Hlíðarenda. Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV tjáði sig einnig um málið í hlaðvarpinu og sagði:
„Samstarf hans og Arnars (Grétarssonar) hefur ekki gengið alveg eins og vonir stóðu til um. Ég heyrði frá leikmanni Vals á síðasta tímabili að það hafi komið einhverjar umræður um að mögulega losa Aron - þetta einfaldlega gengi ekki," sagði Gunnar í þættinum.
Aron ræddi við Baldvin Má Borgarsson eftir tap gegn ÍA í Lengjubikarnum og var hann þar spurður út í nýja samninginn og þessar sögur um að samband hans og Arnars væri ekki gott.
„Þegar maður er á litla Íslandi þá er alltaf einhver sem heyrir eitthvað og þekkir einhvern sem heyrir einhvern annan. Leigubílasögurnar eru helvíti fljótar að dreifast. Það er fullt af fólki sem segir sína skoðun, sem er byggð á einhverju rugli," sagði Aron við Fótbolta.net. „Í raun fannst mér bara fyndið að sjá umræðuna og hlusta á margar af þessum fiskisögum."
Þegar sagan um að samband Arons og Arnars væri slæmt kom fram, þá funduðu þeir saman.
„Þegar það kemur þá talaði ég við Adda og við eigum gott samtal um það. Við vitum báðir að það er ekki rétt. Ég spilaði í fyrra flestalla leiki í byrjunarliði. Það er oft þannig að maður er ekki sammála þjálfaranum og þjálfarinn er ekki alltaf sammála leikmanninum. En samband okkar er mjög fínt og vonandi getum við haldið áfram að byggja ofan á það, og búið til eitthvað sérstakt í sumar," sagði Aron sem er ánægður að hafa framlengt hjá Val.
Aron er 33 ára og hefur leikið með Val undanfarin tvö tímabil. Hann er fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna; lék með bandaríska liðinu á HM árið 2014. Sem atvinnumaður lék hann með AGF, AZ Alkmaar, Werder Bremen Hammarby og Lech Poznan.
Hægt er að hlusta á allt spjallið við hann í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir