Heimild: Bold.dk
Spænska félagið Real Sociedad er að undirbúa stórt tilboð í íslenska landsliðsmanninn Orra Stein Óskarsson, sem er á mála hjá FCK í Danmörku, en þetta segir danski miðillinn Bold.
Forseti Soceidad hefur þegar gefið það út að félagið ætli að ná í ungan og efnilegan framherja fyrir lok gluggans og reiðubúið að greiða ríkulega til að fylla í þá stöðu.
Orri Steinn, sem er 19 ára gamall, hefur verið í sigtinu hjá Sociedad síðustu daga, en það er þó ekki eina félagið sem er með auga á honum. Hann hefur einnig verið orðaður við Stuttgart, Atalanta og Girona.
Samkvæmt Bold mun Sociedad leggja fram 15 milljóna evra tilboð í Orra en endanlegt verð gæti hækkað ef framherjinn nær ákveðnum áföngum. RadioMARCA sagði frá því á dögunum að Sociedad væri þegar í sambandi við umboðsmann Orra.
FCK er talið vilja að minnsta kosti 20 milljónir evra fyrir Orra sem yrði metsala fyrir FCK en Victor Kristiansen var seldur fyrir örlítið lægri upphæð er hann fór til Leicester á síðasta ári.
Danska félagið hafnaði tilboði frá Girona fyrr í sumar, rétt áður en Orri framlengdi samning sinn við félagið til 2028.
Seltirningurinn hefur farið frábærlega af stað á nýju tímabili en hann er með sex mörk og eina stoðsendingu í tíu leikjum og er nú fastamaður í sóknarlínunni.
Athugasemdir