Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
   þri 25. júní 2024 20:16
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Frábær endurkoma Vals á Akureyri
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór/KA 1 - 2 Valur
1-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('60)
1-1 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('85)
1-2 Anna Björk Kristjánsdóttir ('91)

Lestu um leikinn: Þór/KA 1 -  2 Valur

Þór/KA tók á móti Val í stórleik kvöldsins í Bestu deild kvenna og fór leikurinn fjörlega af stað þar sem bæði lið fengu dauðafæri á upphafsmínútunum.

Leikurinn róaðist þó umtalsvert niður í kjölfarið þar sem bæði lið komust í fínar sóknarstöður án þess að takast að skapa góð marktækifæri. Staðan var því markalaus eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik.

Sandra María Jessen fékk dauðafæri í byrjun síðari hálfleiks en skaut framhjá og sjö mínútum síðar tók Hulda Ósk Jónsdóttir forystuna fyrir heimakonur, þegar hún skoraði með glæsilegu skoti í fjærhornið.

Valur leitaði að jöfnunarmarki eftir þetta en komst lítið áleiðis gegn þéttum varnarmúr Þórs/KA. Akureyringar reyndu að beita skyndisóknum en tókst ekki að skapa hættu og við tók dramatískur lokakafli.

Valur jafnaði leikinn á 85. mínútu þegar Fanndís Friðriksdóttir vippaði boltanum innfyrir vörn Þórs/KA, þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir var mætt og kláraði hún laglega.

Fanndís komst í dauðafæri skömmu síðar en Harpa Jóhannsdóttir varði vel frá henni, áður en Valur fékk aukaspyrnu í upphafi uppbótartímans.

Amanda Andradóttir tók spyrnuna og varði Harpa boltann út í teiginn, þar sem Anna Björk Kristjánsdóttir var fyrst að átta sig og skoraði af stuttu færi.

Þetta reyndist sigurmark leiksins þar sem Anna Björk fullkomnaði dramatíska endurkomu Vals á lokamínútunum.

Þetta eru afar dýrmæt stig fyrir Val, sem heldur í við Breiðablik í titilbaráttunni með þessum sigri. Liðin eru jöfn með 27 stig eftir 10 fyrstu umferðirnar.

Þór/KA er í þriðja sæti með 21 stig.
Athugasemdir
banner
banner