Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   fös 25. október 2024 11:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ótrúlegt handrit"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Smári Sigurðsson hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Víkingum í sumar en hann fékk kallið í stóra leikinn í gær, byrjaði leikinn gegn Cercle Brugge. Víkingur skrifaði söguna, varð fyrsta íslenska liðið til að vinna leik í sjálfri Sambandsdeildinni og Herra Víkingur, Halldór Smári, var í liðinu.

Hann gat ekki klárað leikinn þar sem hann varð fyrir axlarmeiðslum eftir um klukkutíma leik og var fluttur á sjúkrahús í kjölfarið. Hann missir af úrslitaleiknum í Bestu deildinni og næsta Evrópuleik vegna meiðslanna. Þeir Arnar Gunnlaugsson og Kári Árnason tjáðu sig um Halldór Smára eftir leikinn í gær.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  1 Cercle Brugge

„Hann vann fyrir þessum leik, búinn að vera mjög góður á æfingum og mikill liðsmaður. Hann lét mig vita snemma í sumar að hann skildi sitt hlutverk og yrði klár þegar kallið kæmi. Kallið kom í dag fyrir Herra Víking að spila í fyrsta sigri íslensks liðs á þessu getustigi. Það er ótrúlegt handrit," sagði þjálfarinn Arnar.

„Ekki spurning að það var ljúft að sjá Halla spila þennan leik. Það elska allir Halla í Fossvoginum, bæði innan liðsins og utan þess. Það var æðislegt að sjá hann og hann stóð sig frábærlega í leiknum. Það var algjör synd að þetta endaði svona hjá honum í gær. En þetta eru ekki það alvarleg meiðsli að hann sé eitthvað annað en glaður þessa stundina, held ég," sagði Kári sem er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi.

Halldór Smári er 36 ára varnarmaður sem hefur leikið með Víkingi allan sinn feril og hefur því verið titlaður Herra Víkingur. Hann hefur farið í gegnum djúpa dali með félaginu en upplifað mjög sætar stundir á síðustu árum.
Arnar Gunnlaugs: Söguleg stund - Þetta er stóra sviðið
Athugasemdir
banner
banner