Gomes gríðarlega eftirsóttur - Liverpool og Man Utd með í kappinu um Guéhi - Liverpool missir af Gordon og skoðar Adeyemi - Barca vill losna við De...
banner
   mið 26. júní 2024 10:30
Elvar Geir Magnússon
Aðhlátursefni hjá Man Utd en gerir nú geggjaða hluti á EM
Ralf Rangnick landsliðsþjálfari Austurríkis er fyrrum stjóri Manchester United.
Ralf Rangnick landsliðsþjálfari Austurríkis er fyrrum stjóri Manchester United.
Mynd: EPA
Hann er fyrrum stjóri Manchester United.
Hann er fyrrum stjóri Manchester United.
Mynd: EPA
Ralf Rangnick yfirgaf Manchester United fyrir tveimur árum. Hann var ráðinn sem bráðabirgðastjóri en náði ekki þeim úrslitum eða liðsframmistöðu sem vonast hafði verið eftir.

Þá öðlaðist hann ekki þá virðingu leikmanna sem á þurfti og Cristiano Ronaldo sagðist aldrei hafa litið á hann sem stjóra.

En nú er hinn 65 ára gamli Rangnick að gera magnaða hluti með austurríska landsliðið. í 3-2 sigri gegn Hollandi í gær sýndi hann af hverju hann hefur verið kallaður 'Guðfaðir Gegenpressunnar' og þá skein í gegn að allt austurríska liðið er á hans bandi.

Sigurinn gegn Hollandi gerði það að verkum að Austurríki vann riðil sinn, riðil sem innihélt einnig Frakkland og Pólland.

Austurríki spilaði með gríðarlega hátt orkustig í gær og leikmenn voru fljótir að vinna boltann til baka ef þeir töpuðu honum. Hollenska liðið virtist þreytast á ákefð andstæðinga sinna.

Íþróttafréttamaðurinn Tom Middler stýrir hlaðvarpi um austurríska fótboltann og hann segir austurríska liðið hafa tekið gríðarlegum framförum undir stjórn Rangnick.

„Liðið er í dag algjör andstæða þess sem það var undir stjórn Franco Foda áður. Þá var liðið varnarsinnað og varkárt. Leikmenn njóta þess greinilega að spila undir stjórn Rangnick og bera virðingu fyrir honum. Fótboltinn sem hann spilar er mun líkari þeim sem þeir þekkja frá félagsliðum sínum," segir Middler.

Rangnick elskar líka starf sitt en hann hafnaði Bayern München fyrr á árinu til að halda áfram með Austurríki.

Einkenni austurríska liðsins sést vel þegar rýnt er í gögnin en Austurríki er ofarlega í öllum tölfræðiþáttum þegar kemur að pressu.

„Það er frábært að sjá austurríska liðið, hversu vel skipulagt það er og allir leikmenn þekkja hlutverk sitt út og inn. Liðsheildin er svo öflug," segir Stephen Warnock sparkspekingur BBC.

„Ralf Rangnick var nánast aðhlátursefni þegar hann yfirgaf Manchester United. Hann vann tvo af síðustu tíu leikjum sínum með United og tapaði með fjögurra marka mun gegn Liverpool og Brighton. En sagan hefur farið góðum höndum um Þjóðverjann. Hann talaði opinskátt um að það væri allt í rugli hjá Manchester United og það var 100% rétt," segir Simon Stone íþróttafréttamaður BBC.
Athugasemdir
banner