Eins og greint var frá í dag þá snýr Cristiano Ronaldo úr skammarkróknum og er í leikmannahópnum gegn Sheriff í Evrópudeildinni á morgun.
Á fréttamannafundi Manchester United í morgun kom Erik ten Hag einnig með tíðindi varðandi Harry Maguire, Donny van de Beek og Aaron Wan-Bissaka sem eru allir komnir af meiðslalistanum.
„Þeir eru allir komnir aftur til æfinga og hafa tekið þátt í undirbúningnum á morgun. Þeir verða skoðaðir eftir æfingu í dag og ég tek ákvörðun í samvinnu við læknateymið," sagði Ten Hag.
Ef Maguire er leikfær gæti hann komið inn í stað Raphael Varane sem spilar ekki meira með Manchester United fyrir HM. Victor Lindelöf gæti líka komið inn en hann kom inn sem varamaður þegar Varane fór meiddur af velli gegn Chelsea.
Van de Beek hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum síðan Ten Hag tók við og Wan-Bissaka hefur bara spilað í einum leik á þessu tímabili. Digo Dalot hefur verið í hægri bakverðinum.
Leikurinn á morgun kemur of snemma fyrir Anthony Martial en franski sóknarmaðurinn nálgast endurkomu.
United vann 2-0 gegn Sheriff í fyrri viðureign liðanna sem fram fór í september. United er í öðru sæti riðilsins, þremur stigum á eftir Real Sociedad sem hefur unnið alla fjóra leiki sína. United er öruggt með að minnsta kosti annað sæti riðilsins með stigi á fimmtudag. Annað sætið gefur umspilssæti.
Athugasemdir