Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 18:16
Ívan Guðjón Baldursson
Breiðablik er Meistari meistaranna 2025
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Breiðablik
Breiðablik 3 - 1 KA
1-0 Hans Viktor Guðmundsson ('32 , sjálfsmark)
2-0 Höskuldur Gunnlaugsson ('34 , víti)
3-0 Tobias Thomsen ('40)
3-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('83)

Lestu um leikinn: Breiðablik 3 -  1 KA

Breiðablik tók á móti KA í úrslitaleik til að útkljá um hvort liðið er meistari meistaranna eftir síðustu leiktíð, þar sem Blikar unnu Bestu deildina á meðan KA vann Mjólkurbikarinn.

Úrslitaleikurinn, sem markar upphaf nýs deildartímabils á hverju ári, einkenndist af slæmum aðstæðum enda er óveður að ríða yfir höfuðborgarsvæðið í dag með vindi, mikilli úrkomu, þrumum og eldingum.

Gestirnir frá Akureyri fengu fyrsta dauðafæri leiksins strax á fjórðu mínútu og var refsað eftir það. Tobias Thomsen komst nálægt því að skora fyrir Blika áður en fyrsta markið leit dagsins ljós, þegar Hans Viktor Guðmundsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 32. mínútu. Hans skallaði hornspyrnu frá Blikum í eigið net og staðan orðin 1-0.

Tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Höskuldur Gunnlaugsson forystuna með marki úr vítaspyrnu og skömmu eftir það tókst Tobias loksins að skora eftir nokkrar tilraunir. Tobias skoraði eftir klaufagang í vörn KA þar sem Akureyringar töpuðu boltanum og bjó Óli Valur Ómarsson markið til með góðri sendingu inn á teig.

Staðan var því 3-0 í leikhlé og mátti litlu muna að Blikar bættu nokkrum mörkum við í síðari hálfleik. Boltinn rataði þó ekki í netið og skoraði Ásgeir Sigurgeirsson eina markið í síðari hálfleik til að minnka muninn niður í 3-1.

Ásgeir skoraði á 83. mínútu og höfðu Akureyringar hvorki tíma né orku til að reyna að jafna metin. Lokatölur 3-1 og eru Blikar meistarar meistaranna í ár.
Athugasemdir
banner