Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 31. október 2022 16:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Evrópa hjá FH á næsta ári? Gleymdu því"
FH fagnar marki í sumar.
FH fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik FH og ÍA í lokaumferð Bestu deildarinnar.
Úr leik FH og ÍA í lokaumferð Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH var nálægt því að falla á þessu tímabili.
FH var nálægt því að falla á þessu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
FH náði að halda sér upp á markatölu er Besta deildin kláraðist síðasta laugardag. FH tapaði gegn ÍA á heimavelli í lokaumferð deildarinnar.

Þetta var afskaplega vont tímabil fyrir FH-inga. Ef tímabilið hefðu verið 22 umferðir, þá hefði FH farið niður.

Það var rætt um FH í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag. Hvað þarf að gerast til þess að þetta komi ekki aftur fyrir hjá FH á næstu leiktíð?

„Þeir þurfa númer eitt, tvö og þrjú að finna þjálfara sem þeir treysta, finna þjálfara sem selur þeim eitthvað plan eða þeir búa til plan sjálfir - skýrt plan hvað þeir ætla að gera, hvernig þeir ætla að gera það, hvernig fótbolta þeir ætla að spila, hvernig leikmenn þeir ætla að fá inn í það," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættnum.

„Þeir þurfa líka að setja sér verulega hófleg markmið fyrir næsta ár. Evrópa hjá FH á næsta ári? Gleymdu því. Það eru miklu betri lið í þessari deild," sagði Tómas jafnframt.

Kristján Atli Ragnarsson, FH-ingur, var líka í þættinum. „FH er sigursælasta félag á landinu á þessari öld. Félag sem hafði ekki unnið dollu í neinu fyrr en þeir taka fyrsta titilinn 2004. Allt í einu hefur FH ekki unnið dollu í sex ár. Velgengni er það sem sigrar mann."

„FH var búið að vera í fyrsta eða öðru sæti í 13 ár áður en Heimir (Guðjónsson) lendir í þriðja sæti og er rekinn. Þegar Heimir fer er ákveðin gull kynslóð sem er komin á endastöð. Það sem stendur fyrir dyrum er endurnýjun á liðinu sem er búin að bera það í gegnum seinni hlutann á þessari velgengni í 13 ár."

„Óli Kristjáns kemur inn og reynir ákveðna endurnýjun... það var eðlilegt að sækja Ólaf en einhverra hluta vegna þá náði það aldrei flugi hjá honum. Síðan þá hafa menn verið haldnir þeim ranghugmyndum í Krikanum að þú sért bara einni hetju frá því að taka titilinn aftur. Það hafa verið framin afglöp því menn hafa ekki verið að horfa á neitt annað en hverjir eru að koma heim úr atvinnumennsku. Getum við sótt hann? Þú endar uppi með lið sem er 'top heavy' - það er fullt af frægum nöfnum og svo bara ekkert. Það er ekki hægt að taka tíu stráka upp úr 2. flokki í einu þó svo að þeir séu efnilegir."

„Ég heyrði einhvern tímann að það væri enginn á bilinu 22-30 ára í liðinu, í leikmannahópnum. Ég trúi eiginlega ekki enn þeirri staðreynd. Hugsið ykkur fótboltalið sem er með engan miðvörð og engan á bilinu 22-30 ára, besti aldur hjá fótboltamönnum," sagði Kristján Atli.

Það voru 26 leikmenn sem spiluðu með FH í sumar og voru þrír þeirra sem voru á aldursbilinu 23-29 ára: Atli Gunnar Guðmundsson, Ástbjörn Þórðarson og Máni Austmann Hilmarsson.

Tölfræðin:
15-22 ára: 14 leikmenn (2000-2007)
23-29 ára: 3 leikmenn (1993-1999)
30-36 ára: 9 leikmenn (1986-1992)

„Menn þurfa að líta í eigin barm. Það er búið að reka þjálfara þrjú sumur í röð á miðju tímabili. Þeir misstu reyndar Óla, en það var ekki húrrandi ánægja með það hvar hann var staddur þegar hann fór til Danmerkur. Það þarf að hugsa hver framtíðarstefnan er og það þarf að finna þjálfara sem hægt er að veðja á til meira en eins árs," sagði Kristján Atli.

„Arnar Gunnlaugs reis ekki hátt á fyrsta tímabili með Víkingum. Óskar Hrafn, það var ekkert frábært á fyrsta tímabili hans. Svo springur þetta út. Það þarf að vera hægt að veðja á eitthvað en þú þarft að vita að það er framtíð í því."

Rætt var um það í útvarpsþættinum að FH væri með grunn til að byggja á, en hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenskar fréttir og enska hringborðið
Athugasemdir
banner
banner