Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 26. júní 2014 17:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 1. deild: Grasið okkar óvinur
Leikmaður 3. umferðar: Guðmundur Atli Steinþórsson (HK)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK unnu góðan 2-1 útisigur gegn KA í 3.umferð 1.deildarinnar, 23.maí síðastliðin. Fresta þurfti leik BÍ/Bolungarvíkur og Grindavíkur í umferðinni vegna veðurs og var spilaður í vikunni.

Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði bæði mörk HK í leiknum snemma í seinni hálfleiknum eftir að hafa 0-1 undir í hálfleik. Guðmundur Atli er leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolta.net

Byrjaði í lélegu standi
,,Ég var búinn að steingleyma þessum leik. Ég man reyndar eitthvað þegar ég rifja þetta upp. Ég man að KA voru miklu betri en við í fyrri hálfleik en síðan kom þetta eins og þruma úr heiðskýru lofti í seinni hálfleiknum þegar við skorum tvö mörk á sjö mínútum. Þeir voru miklu betri lengst um í leiknum en þessi mörk okkar komu uppúr engu. Þeir settu síðan pressu á okkur í lokin en við náðum að halda," sagði Guðmundur Atli sem hefur skorað fimm mörk í 1.deildinni í sumar,

,,Ég er hrikalega ánægður með það. Ég var í lélegu standi í byrjun móts og byrjaði fyrstu tvo leikina á bekknum. Það mætti því segja að þetta væri framar björtustu vonum," sagði Guðmundur sem er ánægður með gengi liðsins hingað til. HK er með 11 stig í 5.sæti deildarinnar,

,,Ég hefði hæglega tekið þessu fyrir mót. Við vorum yfirspilaðir í nokkrum leikjum eftir áramót og þetta leit hreinlega ekki vel út á tímabili. Góð byrjun á Íslandsmótinu var því sérstaklega ánægjuleg."

,,Við erum með gríðarlega sterka miðju með þá Atla Valsson og Jón Gunnar Eysteinsson. Það er ekkert grín að komast framhjá þeim. Við leggjum yfirleitt upp með það að liggja til baka og sækja hratt."

Taplausir á heimavelli
HK-ingum var spáð falli fyrir tímabilið af þjálfurum og fyrirliðum 1.deildar. Guðmundur segir að HK-ingar hafi lítið spáð í þessum spám fyrir tímabilið,

,,Ég var aldrei að hugsa til þess að við værum að fara falla. Ég hugsa hinsvegar heldur ekki að við séum á leið í einhverja toppbaráttu. Það er leiðinlegt að segja þessa klysju, en við tökum alltaf einn leik fyrir í einu. Við erum ekki að fara blása í einhverja lúðra með einhver fáránleg markmið og líta svo út eins og einhverjir hálfvitar," sagði Guðmundur.

HK spilar heimaleiki sína í Kórnum og eru taplausir á heimavelli. Þeir hafa tapað tveimur leikjum í sumar, einu leikir liðsins á grasi. Liðið fer til Grindavíkur í næstu umferð og spilar þar á grasi.

,,Grasið er okkar helsti óvinur í dag. Við erum taplausir á gervigrasi og það væri því fínt ef við myndum spila alla okkar leiki á gervigrasi. Við förum í Grindavík til að sækja stig. Gengi Grindavíkur er mikið útúr karakter hjá þeim. Þeir eru með frábæran hóp og góðan þjálfara. Ég hef enga trú á þér en að þeir snúi þessu við og fari taplausir í gegnum seinni umferðina," sagði markahrókurinn, Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður 3.umferðar í 1.deild karla.

Sjá einnig:
Leikmaður 7. umferðar - Ævar Ingi Jóhannesson (KA)
Leikmaður 6. umferðar - Hilmar Rafn Emilsson (Haukar)
Leikmaður 5. umferðar - Magnús Bernhard Gíslason (KV)
Leikmaður 4. umferðar - Tómas Agnarsson (KV)
Leikmaður 2. umferðar - Óttar Bjarni Guðmundsson (Leiknir R)
Leikmaður 1. umferðar - Vilhjálmur Pálmason (Þróttur)
Athugasemdir
banner