Völsungur fór með sigur af hólmi gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í 2. dield karla um síðustu helgi. Sigurinn var gríðarlega þýðingarmikill í toppbaráttunni fyrir Húsvíkinga.
Völsungur er núna í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Aftureldingu en ef leikurinn hefði tapast fyrir Völsung hefðu þeir dottið sjö stigum á eftir Mosfellingum. Elvar Baldvinsson var sterkur hjá Völsungi í leiknum og hann er leikmaður umferðarinnar hjá Fótbolta.net.
Völsungur er núna í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Aftureldingu en ef leikurinn hefði tapast fyrir Völsung hefðu þeir dottið sjö stigum á eftir Mosfellingum. Elvar Baldvinsson var sterkur hjá Völsungi í leiknum og hann er leikmaður umferðarinnar hjá Fótbolta.net.
„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur og lögðum við leikinn þannig upp að vinna þá í bæði hlaupum og baráttu og þá myndi gott spil fylgja. Mér fannst við hafa yfirhöndina á þeim sviðum í leiknum. Við viljum halda boltanum á jörðinni og spila hraðan og skemmtilegan fótbolta en þetta er hörð deild og þađ þurfa alltaf allir ađ vera klárir í smá hasar. Stundum eru sigrarnir "ekki fallegir" og mikil barátta inn á vellinum en þetta var frábær sigur fyrir okkur og gefur klárlega aukinn kraft inn í næstu leiki," segir Elvar.
„Ég var þokkalega ánægður međ sjálfan mig, nokkrar sendingar sem hefðu mátt vera betri en ég reyni að horfa bara á góðu punktana. Mér fannst ég vera mjög ferskur og náði ég að gíra mig vel upp fyrir leikinn, við fengum gott fótboltaveður, völlurinn vel blautur og aðstæður góðar - þannig að það var ekki yfir miklu að kvarta."
„Það áttu allir góðan leik fannst mér og unnum við mjög vel saman til að ná í þennan sigur. Allur hópurinn náði upp góðri stemmingu fyrir leik og spilaði það mjög stóran þátt í þessum þremur stigum á einum erfiðasta útivelli deildarinnar."
Spilaði aðra stöðu og gerði það ljómandi vel
Elvar er að upplagi kantmaður en hann spilaði sem miðjumaður í þessum leik og í svokölluðu "Kante-hlutverki" ef svo má segja - hann átti að vera baráttuhundur á miðjunni og sinna góðri varnarvinnu. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið mjög góður fyrir og hann hafi skorað þá vonast hann til að snúa aftur í stöðu kantmanns fljótlega.
„Já mikið rétt, er vanalega að spila út á kantinum en fékk nýtt hlutverk í þessum leik. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt," segir Elvar.
„Það voru tveir í banni fyrir þennan leik, báðir miðjumenn, og var ég settur þar til að vinna góða varnarvinnu og skallabolta og reyna hlaupa eins og brjálæðingur."
„Ég kann betur á kantstöðuna en miðjuna og vonast ég til að spila þar áfram en ef þjálfarinn biður mig um að leysa einhverja aðra stöðu þá að sjálfsögu geri ég það 100%."
Markið sem Elvar skoraði var skallamark en hann segist skora þannig mörk alltof sjaldan. „Ég hef sett eitt og eitt skallamark en það gerist alltof sjaldan, þannig þetta var extra skemmtilegt!"
„Við fengum hornspyrnu stuttu eftir ađ þeir skora markið sitt í leiknum og við settum hornin upp með að setja boltann inn á markmanninn þar sem við vorum með marga leikmenn. Ég staðsetti mig á nærstöngina og boltinn fór yfir fyrstu menn og þá var ég mættur til að skalla hann inn."
Toppbaráttan er mjög hörð
Toppbaráttan í 2. deildinni er gríðarlega hörð og skilja aðeins fimm stig liðið í efsta og sæti og liðið í sjöunda sæti. Telur Elvar að Völsungur hafi það sem þarf til að komast upp?
„Það er mjög góð stemning í hópnum og búið að vera allt árið en auðvitað er alltaf eitthvað mótlæti og þá tökum við bara á því sem lið. Við sýndum það í Lengjubikarnum ađ þetta lið getur klárað hlutina, þannig að ég tel okkur líklega til að klára þetta sumar vel og enda í efsta sætinu."
„Við hins vegar hugsum alltaf bara um hvern leik fyrir sig og pössum að fara ekki langt fram úr okkur."
Völsungur endaði í sjöunda sæti í fyrra. Hvað hefur breyst síðan þá?
„Það sem hefur aðallega breyst er það að liðsheildin er betri og við kunnum betur inn á hvern annan. Við áttum nokkra góđa leiki í fyrra þar sem við sýndum ađ við ættum fullt erindi í toppbaráttuna en við vorum ekki nægilega góðir á útivelli sem varð okkur ađ falli. Við unnum mikið í þessu á undirbúningstímabilinu og það er greinilega að skila sér."
Völsungur hefur verið að spila vel á útivelli í sumar en liðið er þá taplaust á heimavelli. Næsti leikur er heimaleikur gegn Víði.
„Mér líst mjög vel á það, Víðir er međ hörkulið og það verđur mikil barátta og skemmtilegur leikur. Það er alltaf mikil stemming á Húsavík á Mærudögum og vonandi mæta sem flestir á völlinn og hvetja okkur áfram!"
Stefnir á atvinnumennsku
Elvar er 21 árs gamall en hefur spilað stórt hlutverk í liði Völsungs frá árinu 2014. Elvar stefnir á atvinnumennsku í framtíðinni en er núna eingöngu að hugsa um Völsung og að hjálpa liðinu að komast upp um deild.
„Stefnan er sett á atvinnumennskuna en ég er ekki mikið að plana fram í tímann, reyni bara að standa mig í öllum þeim verkefnum sem ég fæ og taka einn leik í einu," segir Elvar að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar: Adam Örn Guðmundsson - Fjarðabyggð
Leikmaður 2. umferðar: Páll Sindri Einarsson - Kári
Leikmaður 3. umferðar: Ásgeir Kristjánsson - Völsungur
Leikmaður 4. umferðar: Milos Ivankovic - Huginn
Leikmaður 5. umferðar: Ásgeir Kristjánsson - Völsungur
Leikmaður 6. umferðar: Brynjar Kristmundsson - Þróttur V.
Leikmaður 7. umferðar: Daniel Badu - Vestri
Leikmaður 8. umferðar: Brynjar Árnason - Höttur
Leikmaður 9. umferðar: Hafliði Sigurðarson - Afturelding
Leikmaður 10. umferðar: Stefan Antonio Lamanna - Tindastóll
Leikmaður 11. umferðar: Kristófer Melsteð - Grótta
Athugasemdir