Keppni í Pepsi-deild kvenna lauk síðastliðinn laugardag og Breiðablik stendur uppi sem Íslandsmeistari eftir frábært mót. Blikar eiga flesta fulltrúa í liðinu að þessu sinni eða sex leikmenn. Næstflestar koma úr silfurliði Þórs/KA, eða fjórar. Loks á KR einn fulltrúa.
Hér að neðan gefur að líta úrvalslið deildarinnar að mati fréttaritara Fótbolta.net.
Hér að neðan gefur að líta úrvalslið deildarinnar að mati fréttaritara Fótbolta.net.
Sonný Lára Þráinsdóttir - Breiðablik
Sonný Lára átti enn eitt frábært tímabilið í rammanum hjá Breiðablik. Bar fyrirliðabandið í sumar og hampaði báðum stóru titlunum með liði sínu. Fékk aðeins á sig 12 mörk í deildinni, fæst allra markvarða.
Ásta Eir Árnadóttir - Breiðablik
Bakvörðurinn knái átti sitt besta tímabil til þessa. Var frábær bæði varnar- og sóknarlega fyrir Blika. Hefur sýnt jafna og góða frammistöðu út allt mótið og hlýtur að vera farin að banka á A-landsliðshópinn.
Guðrún Arnardóttir - Breiðablik
Blikar stilltu upp nýrri varnarlínu í sumar en það var ekki að sjá, samvinnan var eins og þær hefðu spilað saman um árabil. Guðrún fór á kostum og tengdi saman bestu vörn deildarinnar.
Arna Sif Ásgrímsdóttir - Þór/KA
Arna Sif er komin aftur heim og var frábær fyrir öflugt lið Þórs/KA. Stórkostleg í loftinu og mikill leiðtogi í hjarta varnarinnar. Skoraði fjögur mörk, mest allra varnarmanna.
Anna Rakel Pétursdóttir - Þór/KA
Anna Rakel heldur áfram að blómstra og lék glimmrandi vel, bæði í stöðu vinstri vængbakvarðar og inni á miðjunni fyrir Þór/KA. Er með einn besta fótinn í deildinni og lagði upp sex mörk fyrir liðsfélaga sína.
Alexandra Jóhannsdóttir - Breiðablik
Sló aldeilis í gegn á sínu fyrstu tímabili með Breiðabliki og smellpassar inn í leikstíl liðsins. Er frábær á boltanum og skapandi fram á við á sama tíma og hún er vinnusöm og sterk varnarlega. Skoraði fimm mörk og lagði upp fjögur. Efldist með hverri umferð og toppaði svo undir lok móts þar sem hún átti hvern stórleikinn á fætur öðrum.
Hildur Antonsdóttir - Breiðablik
Sumarið var áhugavert hjá Hildi. Hún lék fyrstu 8 leikina á láni hjá HK/Víkingum þar sem hún barðist í neðri hluta deildarinnar. Skipti svo yfir í Breiðablik í félagaskiptaglugganum. Hún leysti bæði verkefni af miklum sóma og var lykilkona í báðum liðum. Hennar besta tímabil í Pepsi-deildinni.
Katrín Ómarsdóttir - KR
Það er ekki að ástæðulausu sem talað er um Katrínu sem drottninguna í Vesturbænum. Þvílík gæði sem hún býr yfir. Hún var sérstaklega öflug síðari hluta mótsins og hafði afgerandi áhrif í fallbaráttunni. Kom að meirihluta marka KR og skoraði fallegasta mark sumarsins með eftirminnilegri hjólhestaspyrnu.
Sandra María Jessen - Þór/KA
Enn eitt fantagott sumar hjá Söndru Maríu sem var dugleg að skora fyrir norðankonur. Sýndi líka hvers megnug hún er varnarlega, sérstaklega í Evrópuleikjunum gegn Wolfsburg þar sem hún fór fyrir sínu liði í virkilega krefjandi verkefnum.
Sandra Stephanie Mayor - Þór/KA
Þriðja tímabilið hjá Söndru á Íslandi og þriðja árið í röð í úrvalsliði Fótbolta.net! Er alltaf tekin föstum tökum og er sá leikmaður í deildinni sem oftast er brotið á. Endar engu síður næstmarkahæst í deildinni með 15 mörk skoruð og átta stoðsendingar. Mikil gæfa fyrir íslenskan fótbolta að hafa fengið Söndru hingað til lands.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir - Breiðablik
19 mörk í 18 leikjum segja allt sem segja þarf. Eftir erfiðan vetur og skrítið undirbúningstímabil kom Berglind hungruð til leiks. Setti tóninn strax í fyrsta leik með þrennu. Skoraði svo jafnt og þétt yfir tímabilið og tryggði sér gullskóinn.
Varamannabekkur:
Lillý Rut Hlynsdóttir - Þór/KA
Caitlyn Clem - Selfoss
Fjolla Shala - Breiðablik
Lára Kristín Pedersen - Stjarnan
Agla María Albertsdóttir - Breiðablik
Selma Sól Magnúsdóttir - Breiðablik
Telma Hjaltalín - Stjarnan
Sjá einnig:
Lið ársins 2017
Lið ársins 2016
Athugasemdir