Milos Milojevic og lærisveinar hans í Al Wasl munu ekki verja forsetabikarinn í ár eftir að liðið tapaði fyrir Shabab Al Ahli í undanúrslitum í kvöld. Íslendingalið Istra 1961 er þá úr leik í króatíska bikarnum.
Milos, sem stýrði Breiðablik og Víkingi hér heima, vann forsetabikarinn með Al Wasl á síðsutu leiktíð og fór alla leið í undanúrslit í ár.
Al Wasl og Shabab Al Ahli mættust í undanúrslitunum en Al Wasl spilaði manni færri í 50 mínútur.
Majed Suroor, leikmaður Al Wasl, fékk rautt spjald þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Staðan var markalaus eftir 90 mínútur en í framlengingunni skoruðu Shabab Al Ahli snemma og dugði það.
Al Wasl skoraði í seinni hluta framlengingarinnar en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Það er því Shabab sem spilar til úrslita í ár.
Daníel Dejan Djuric spilaði síðustu mínúturnar í 1-0 tapi Istra 1961 gegn Rijeka í undanúrslitum króatíska bikarsins, en Logi Hrafn Róbertsson var ónotaður varamaður.
Rijeka mætir Slaven Belupo í úrslitum.
Brynjólfur Andersen Willumsson spilaði síðustu tuttugu mínúturnar í 4-1 tapi Groningen gegn Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni. Feyenoord er í 3. sæti með 53 stig en Groningen með 32 stig í 8. sæti.
Athugasemdir