Áhugi Man Utd á Delap eykst - Telja að Salah hafi áhuga á að fara til Sádi-Arabíu - Newcastle reynir við Elliott
   mið 02. apríl 2025 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mikaela Nótt: Ég sá þetta bara sem plús fyrir mig
Mynd: FHL
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikaela Nótt Pétursdóttir var á mánudag kynnt sem nýr leikmaður FHL en hún kemur á láni frá Íslandsmeisturum Breiðabliks út komandi tímabil.

Mikaela Nótt er 21 árs varnarmaður sem kom við sögu í tíu deildarleikjum með Breiðabliki í fyrra. Hún ræddi við Fótbolta.net um skiptin.

„Það er ótrúlega spennandi að vera orðin leikmaður FHL og ég hlakka mikið til fyrsta leik með þeim," segir Mikaela.

Hún segir að hún hafi rætt við Nik Chamberlain þjálfara Breiðabliks og út frá því hafi þessi möguleiki komið upp.

„Ég ákvað í sameiningu með Nik að ég færi á lán og hann hjálpaði mér að finna lið þar sem ég fengi að spila. Það sem heillar mig mest er að fá að æfa í toppaðstæðum hjá Breiðabliki en spila með FHL, ég sé mikinn kost í því."

Þýðir það þá að Mikaela verði talsvert hjá Breiðabliki í sumar, og mæti svo skömmu fyrir leiki til móts við hópinn hjá FHL?

„Það er ennþá aðeins óákveðið hvernig við munum hafa þetta, en það verður einhvern veginn þannig."

Var ekkert hik að fara austur og taka sumarið þar?

„Jú, ég viðurkenni að það var smá hik en samt því lengur sem ég pældi í þessu þá sá ég þetta bara sem plús fyrir mig."

Hvernig líst Mikaelu á sumarið í heild sinni?

„Það er mjög spennandi og verður gaman að sjá nýliðana sýna sig í Bestu deildinni," segir hún.

FHL vann Lengjudeildina í fyrra og er í fyrsta sinn í efstu deild. Liðið heimsækir Tindastól í fyrstu umferð þann 16. apríl.
Athugasemdir
banner
banner