Það eru aðeins þrír dagar í það að Besta deildin fari af stað. Opnunarleikurinn er á milli Breiðabliks og Aftureldingar og er mikil eftirvænting.
Fótbolti.net heldur áfram að hita upp fyrir deildina með ýmsum hætti. Núna ætlum við að skoða tíu spennandi leikmenn sem eru að fara að taka sín fyrstu skref í Bestu deildinni í sumar.
Fótbolti.net heldur áfram að hita upp fyrir deildina með ýmsum hætti. Núna ætlum við að skoða tíu spennandi leikmenn sem eru að fara að taka sín fyrstu skref í Bestu deildinni í sumar.
Reglan var sú að til að komast inn á þennan lista þá máttu ekki hafa spilað í Bestu deildinni áður. Því kemst Samúel Kári Friðjónsson, nýr leikmaður Stjörnunnar, ekki inn á listann þar sem hann spilaði tvo leiki fyrir Keflavík sumarið 2022.
Einnig komast þeir sem voru inn á listanum yfir spenanndi ungstirni í gær ekki inn á þennan lista til að halda smá fjölbreytni. Leikmenn eins og Halldór Snær Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson hefðu hæglega getað verið inn á þessum lista.
En hér fyrir neðan má sjá listann yfir tíu spennandi nýliða í Bestu deildinni sumarið 2025.
Vicente Valor (KR) - Hæfileikaríkur miðjumaður sem var valinn í úrvalslið Lengjudeildarinnar með ÍBV síðasta sumar og skipti yfir í Vesturbæinn fyrir komandi tímabil.
Jörgen Pettersen (ÍBV) - Leikmaður sem hefur unnið sig upp úr 2. deild og er núna kominn upp í Bestu deildina í fyrsta sinn. Lék afar vel með Þrótti í fyrra.
Kristoffer Grauberg (Vestri) - Hávaxinn sóknarmaður sem gæti reynst varnarmönnum sérstaklega erfiður í loftinu.
Marius Lundemo (Valur) - Miðjumaður fæddur árið 1994 en hann hefur reynslu úr efstu deild í Noregi. Hann vann fjölda titla með Rosenborg og lék síðast með Lilleström.
Baldvin Þór Berndsen (ÍA) - Var á bekknum í liði ársins í Lengjudeildinni síðasta sumar. Sterkur miðvörður sem er tilbúinn í hörkuna á Akranesi.
Bragi Karl Bjarkason (FH) - Hávaxinn kantmaður sem hefur raðað inn mörkum með ÍR í neðri deildum síðustu ár.
Simon Tibbling (Fram) - Miðjumaður með alvöru ferilskrá og einn A-landsleik fyrir Svíþjóð. Verður spennandi að sjá hvernig hann kemur inn hjá Fram.
Andi Hoti (Valur) - Ungur og efnilegur miðvörður sem Valur keypti frá Leikni á dögunum. Verður fróðlegt að sjá hvernig hlutverk hann fær á Hlíðarenda.
Elmar Kári Cogic (Afturelding) - Leikmaður með ótrúlega mikla hæfileika sem verður gaman að fylgjast með í Bestu deildinni. Hefur verið orðaður við félög í efri helmingnum en ef hann á gott sumar, þá gæti hann farið beint út í atvinnumennsku.
Athugasemdir