Marcus Rashford var á skotskónum annan leikinn í röð er Aston Villa vann Brighton, 3-0, í 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og þá er Liverpool aftur komið með tólf stiga forystu á toppnum eftir að hafa lagt nágranna sína í Everton að velli, 1-0, á Anfield.
Jack Grealish og Omar Marmoush skoruðu mörk Man City gegn Leicester.
Grealish skoraði strax á 2. mínútu en það var hans fyrsta deildarmark á tímabilinu. Savinho fann Grealish í miðjum teignum sem stýrði boltanum í vinstra hornið.
Marmoush gerði annað markið eftir skelfileg mistök hjá Mads Hermansen, markverði Leicester. Hann missti auðveldan bolta í teignum og út á Marmoush sem skaut boltanum í samskeytin.
Norski leikmaðurinn Oscar Bobb kom inn á í síðari hálfleiknum en hann var að spila sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu eftir að hafa fótbrotnað á undirbúningstímabilinu.
Man City er í 4. sæti með 51 stig en Leicester í næst neðsta sæti með 17 stig.
Aston Villa vann 3-0 útisigur á Brighton þökk sé mörkum frá Marcus Rashford og varamanninum Marco Asensio.
Rashford gerði mark sitt snemma í síðari hálfleik. Brighton átti hornspyrnu sem Emiliano Martínez greip og kom strax í leik á Morgan Rogers. Hann átti konfektsendingu fram völlinn á Rashford sem lyfti boltanum yfir Bart Verbruggen í markinu. Fyrsta deildarmark hans með Villa og þriðja markið sem hann skorar í öllum keppnum.
Asensio gerði annað markið tólf mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma eftir undirbúning Rogers áður en Donyell Malen gerði út um leikinn í uppbótartíma og Villa komið upp fyrir Brighton og í 7. sætið með 48 stig en Brighton í sætinu fyrir neðan með 47 stig.
Botnlið Southampton gerði svekkjandi 1-1 jafntefli gegn Crystal Palace á St. Mary's leikvanginum.
Paul Onuachu kom Southampton yfir á 20. mínútu og tókst heimamönnum að halda í þá forystu fram að uppbótartíma síðari hálfleiks er Matheus Franca stangaði sendingu Jefferson Lerma í netið.
Southampton er á botninum með 10 stig og aðeins tímaspursmál hvenær fall liðsins verður staðfest en Palace í 12. sæti með 40 stig.
Deildabikarmeistarar Newcastle United unnu 2-1 sigur á Brentford á St. James' Park. Alexander Isak skoraði 20. deildarmark sitt undir lok fyrri hálfleiks en Bryan Mbeumo jafnaði úr vítaspyrnu þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.
Newcastle var ekki lengi að svara. Sandro Tonali skoraði stórbrotið mark utan af hægri vængnum. Hann virtist í fyrstu vera að koma boltanum fyrir markið en boltinn tók allt aðra stefnu og hafnaði efst í vinstra horninu. Mark Flekken leit ekkert sérstaklega vel út í markinu og bjóst hreinlega aldrei við þessu.
Newcastle situr nú í 5. sæti með 50 stig, einu stigi frá Manchester City sem er í 4. sætinu. Brentford er í 11. sæti með 41 stig.
Nýliðar Ipswich unnu þá óvæntan 2-1 útisigur á Bournemouth. Nathan Broadhead og Liam Delap komu gestunum í tveggja marka forystu en Evanilson gerði eina mark Bournemouth á 67. mínútu.
Gríðarlega mikilvægur sigur hjá Ipswich í fallbaráttunni. Liðið er með 20 stig í 18. sæti, níu stigum frá öruggu sæti þegar átta umferðir eru eftir. Möguleiki Bournemouth um að komast í Meistaradeildina minnkuðu talsvert eftir úrslit kvöldsins en liðið er nú sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.
Liverpool vann grannaslaginn og er aftur komið með tólf stiga forystu
Topplið Liverpool lagði Everton að velli, 1-0, á Anfield í lokaleik kvöldsins.
Liverpool-menn náðu að endurstilla sig í landsleikjahléinu eftir að hafa dottið úr leik í Meistaradeildinni og tapað deildabikarsúrslitum gegn Newcastle.
Heimamenn vildu fá að sjá rautt spjald á loft á 11. mínútu er James Tarkowski fór í ljóta tæklingu á Alexis Mac Allister. Hann fór í boltann en fylgdi á eftir í fótinn á Mac Allister en uppskar aðeins gult spjald.
Portúgalski framherjinn Beto kom boltanum í netið á 20. mínútu en markið ólöglegt vegna rangstöðu. Portúgalinn átti síðan aðra tilraun í stöng þrettán mínútum síðar.
Staðan jöfn þegar gengið var til búningsherbergja en það var Liverpool sem tók öll stigin er Diogo Jota hljóp á hælsendingu Luis Díaz, lék á tvo varnarmenn og skoraði af miklu öryggi í vinstra hornið.
Mohamed Salah, besti leikmaður Liverpool, átti ekki sinn besta leik og var tekinn af velli þegar lítið var eftir. Þrír leikir í röð þar sem hann hefur ekki verið samkvæmur sjálfum sér.
Það breytti hins vegar engu í þetta sinn. Liverpool vann leikinn og er komið aftur með tólf stiga forystu á toppnum og titillinn í augsýn.
Úrslit og markaskorarar:
Bournemouth 1 - 2 Ipswich Town
0-1 Nathan Broadhead ('34 )
0-2 Liam Delap ('60 )
1-2 Evanilson ('67 )
Brighton 0 - 3 Aston Villa
0-1 Marcus Rashford ('51 )
0-2 Marco Asensio ('78 )
0-3 Donyell Malen ('90 )
Manchester City 2 - 0 Leicester City
1-0 Jack Grealish ('2 )
2-0 Omar Marmoush ('29 )
Newcastle 2 - 1 Brentford
1-0 Alexander Isak ('45 )
1-1 Bryan Mbeumo ('66 , víti)
2-1 Sandro Tonali ('74 )
Southampton 1 - 1 Crystal Palace
1-0 Paul Onuachu ('20 )
1-1 Matheus Franca ('90 )
Liverpool 1 - 0 Everton
1-0 Diogo Jota ('57 )
Athugasemdir