Betsy Hassett miðjumaður KR í Pepsi Max-deild kvenna þurfti að fara af velli í 1-0 tapi liðsins gegn HK/Víkingi í 1. umferð deildarinnar í gærkvöldi.
Bojana Besic, þjálfari KR, staðfesti við mbl.is í dag að Hassett hefði brotið bein í úlnlið þegar hún meiddist snemma í seinni hálfleik. Hassett féll illa við eftir baráttu við endamörkin í sókn KR og myndataka eftir leik leiddi í ljós beinbrot.
„Ég veit ekki alveg með Betsy hún þurfti að fara strax útaf en við skoðum það betur þegar við komum inn í klefa. Ég vona að þetta sé ekki alvarlegt, þetta er leikmaður sem er að fara á HM og einn af lykil leikmönnunum hjá okkur," sagði Bojana í viðtali við Fótbolta.net eftir leik í gær.
Bojana segir í samtali við Morgunblaðið að Hassett sé nú komin með gifs og að sjúkraþjálfarar segi hana geta spilað með gifsið, jafnvel strax í næsta leik. Þetta þýðir að Hassett ætti að vera klár í slaginn á HM þar sem Nýja-Sjáland mætir Hollandi í fyrsta leik 11. júní, en liðið er einnig í riðli með Kanada og Kamerún.
KR mætir Val á heimavelli í 2. umferð Pepsi Max-deildarinnar næstkomandi miðvikudag.
Katrín Ómarsdóttir spilaði ekki í gær, eftir að hafa fengið högg í læri í æfingaleik gegn FH. Bojana segir að Katrín verði hins vegar klár í slaginn í næsta leik sem er við Val næsta miðvikudag.
Athugasemdir