Vinstri bakvörðurinn Davíð Kristján Ólafsson gekk í raðir Álasunds frá uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki, í febrúar á þessari leiktíð.
Davíð hefur leikið vel með Álasundi sem er á toppi norsku OBOS-Ligaen, næstefstu deild í Noregi, og er nú þegar öruggt með sæti í efstu deild sem og með 1. deildar titilinn.
Fótbolti.net hafði samband við Davíð um helgina og fór yfir leiktíðina með honum.
Davíð hefur leikið vel með Álasundi sem er á toppi norsku OBOS-Ligaen, næstefstu deild í Noregi, og er nú þegar öruggt með sæti í efstu deild sem og með 1. deildar titilinn.
Fótbolti.net hafði samband við Davíð um helgina og fór yfir leiktíðina með honum.
Eigum möguleika á stigameti
Davíð var fyrst spurður út í gengi Álasunds á leiktíðinni. Davíð segir leikmenn liðsins hafa verið staðráðna í því að fara upp um deild frá fyrsta degi.
„Tímabilið er búið að ganga frábærlega hjá liðinu. Allir voru staðráðnir á að fara upp og skilaði það sér með öruggu sæti í efstu deild."
„Við höfum ekki tapað leik á heimavelli í venjulegum leiktíma í deild eða bikar. Eina tapið á heimavelli var í vítatspyrnukeppni gegn Viking Stavanger í átta-liða úrslitum í bikarnum. Við eigum síðan möguleika að ná stigameti í 1. deild sem stefnt er á."
„Það sem skilaði þessum árangri hja liðinu er í rauninni bara breiddin sem við erum með í liðinu. Þetta er þannig hópur að ef þú átt einn slæman leik þá er auðvelt fyrir þjálfarann að setja næsta mann inn."
Davíð nefnir sérstaklega að Niklas Castro, framherjinn frá Síle, hafi verið frábær fyrir liðið á leiktíðinni. Castro hefur skorað 15 mörk og lagt upp níu í deildinni.
„Niklas Castro er búinn að vera gríðarlega flottur á tímabilinu. Hann er algjör lykilleikmaður fyrir okkur. Álasund fékk hann fyrir þetta tímabil og voru það alvöru kaup."
Persónulega gengið mjög vel
Davíð var svo spurður út í sína spilamennsku sérstaklega á leiktíðinni en hann hefur vakið athygli með mörgum stoðsendingum og góðri frammistöðu.
„Mitt fyrsta tímabil er búið ganga nokkuð vel myndi ég segja. Ég lendi í leiðinlegum meiðslum í byrjun og var í rauninni ekki leikfær fyrstu 7-10 leikina."
„Eftir að ég kom inn er ég búinn að spila 13 leiki með sjö stoðsendingar og eitt mark. Þetta er allt mjög nýtt fyrir mér og ég er bara ennþá að aðlagast."
Þurft að verma bekkinn í síðustu þremur leikjum
Davíð hefur þrátt fyrir góða spilamennsku yfir allt tímabilið þurft að verma varamannabekkinn í síðustu þremur leikjum Álasunds. Davíð var spurður hvers vegna svo sé.
„Þjálfarinn ákvað að breyta til eftir jafntefli á móti Ull/Kisa á útivelli og tekur mig út úr liðinu. Strákurinn sem spilaði mína stöðu skoraði og lagði síðan upp í siðustu tveimur leikjum þannig það er í rauninni ástæðan af hverju ég hef ekki byrjað siðustu tvo leiki. Þetta er samkeppni. Ég bíð bara eftir að ég fái tækifæri aftur og ætla ég að nýta það þegar að því kemur."
Meiri kröfur hjá Álasundi
Davíð var næst spurður hver munurinn væri að spila með Álasundi og Breiðabliki. Davíð segist hafa þurft að læra nýja stöðu í nýju kerfi og kröfurnar og samkeppnin sé meiri.
„Munurinn er nokkur þar sem við erum að spila annað kerfi en ég var vanur. Ég hafði litla reynslu á því að spila vængbakvarðarstöðuna áður en ég kom hingað þannig það er eitthvað sem ég hef þurft að 'stúdera'."
„Þetta er að mínu mati virkilega krefjandi staða ef liðið spilar mikinn sóknarbolta. Hlaupagetan þarf að vera mikil og svo þarftu að sinna bæði mikilli varnar- og sóknarvinnu. Til að taka saman þá kröfurnar meiri og samkeppnin harðari myndi ég segja."
Stefnan sett á að spila í efstu deild
Davíð var spurður hvort hann stefndi á að vera áfram hjá Álasundi eða hvort hugurinn leitaði annað.
„Ég verð áfram á næsta tímabili. Eliteserien (efsta deild) er mun sterkari deild og hver einasti leikur verður mun erfiðari. Stærri klúbbar og meiri læti á leikjum. Markmiðið mitt er vera spila með liðinu í efstu deild og að ná því myndi gera mig mjög ánægðan."
Daníel Leó giftir sig í desember
Davíð var næst spurður út í Íslendingana hjá félaginu en þrír aðrir Íslendingar eru á mála hjá Álasund. Það eru þeir Hólmbert Aron Friðjónsson, Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson.
„Það er búið að hjálpa mér gríðarlega mikið að vera með íslensku strákana hérna. Þeir eru allir topp gæjar og virkilega góðir leikmenn. Aron og Daniel spila allar mínutur hérna og Hólmbert er virkilega vel metinn hjá klúbbnum enda var hann kosinn besti leikmaður deildarinnar í fyrra. Hann hefur því miður verið óheppinn með meiðsli á þessari leiktíð."
„Aron er samningslaus eftir tímabilið og verður erfitt að fylla hans skarð í liðinu. Aron er gæi sem myndi hlaupa í 90 mínútur án þess að vera með hnéskel. Svo er hann geggjaður í fótbolta líka. Það verður gaman að sjá hvert hann fer eftir tímabilið."
„Daníel er búinn að vera einn besti leikmaður liðsins á þessu tímabili sem er frábært fyrir hann. Daníel er að giftast ástinni í desember. Við verðum allir þar og það verður eflaust alvöru partí."
Auðvitað markmiðið að vera valinn aftur í landsliðið
Davíð var að lokum spurður út í landsliðið en hann var valinn í janúarverkefni landsliðsins á þessu ári og lék sinn fyrsta landsleik. Davíð vonast til að fá aftur kallið í framtíðinni.
„Það var frábært að vera valinn í janúar verkefnið á þessu ári og það er auðvitað markmiðið að vera valinn aftur."
Athugasemdir