Real Madrid vill Guehi - Arsenal á undan Juve í baráttu um Calafiori - De Ligt hefur áhuga á að fara til Man Utd
banner
   mán 01. júlí 2024 11:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óskar Hrafn: Horfi á hann fagna og er nánast með æluna í kokinu
Jude Bellingham.
Jude Bellingham.
Mynd: EPA
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta getur verið svo grunnt," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson á RÚV þegar hann ræddi um jöfnunarmark Jude Bellingham í leik Englands og Slóvakíu á EM í gær.

Englendingar voru á útleið úr keppninni þegar Bellingham skoraði með hjólhestaspyrnu á síðustu stundu. Hann varð þar með hetjan sem hélt Englandi inn í keppninni.

En Bellingham átti virkilega dapran leik heilt yfir.

„Ég horfi á hann fagna og er nánast með æluna í kokinu. Rembingurinn er svo mikill. Fyrir mér er hann búinn að vera - af mörgum lélegum hjá Englandi - afburðarlélegasti maður vallarins," sagði Óskar en hann talaði um að hann væri ekki til í að hafa karakter eins og Bellingham í sínu liði. Líkamstjáning hans í leiknum var afskaplega leiðinleg.

„Auðvitað er fótbolti þannig að hann snýst um stóru stundirnar og gera eitthvað þegar mest á reynir. Það verður ekki tekið af honum. En ég myndi ekki í eina sekúndu nenna að hafa þennan gæja í mínu liði miðað við hugarfarið hvernig hann sýnir, stælana og líkamstjáninguna. Mér finnst hann vera orðinn aðeins of stór og aðeins of góður með sig."

„Ef það þurfti einhver að skora þetta mark, þá er ég pirraður að það sé hann. Núna sleppur hann við gagnrýnina og að það sé tekið á þessu. Hann er hetjan en ég hefði viljað henda honum út af í hálfleik. Þetta mark breiðir yfir hvað þetta er búið að vera ömurlegt hjá þeim," sagði Óskar.

Bellingham, sem er 21 árs, átti magnað tímabil með Real Madrid en hefur alls ekki átt gott Evrópumót.


Athugasemdir
banner
banner