Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   sun 30. júní 2024 18:52
Brynjar Ingi Erluson
EM: Bellingham og Kane komu Englendingum til bjargar
Jude Bellingham og Harry Kane komu Englendingum áfram
Jude Bellingham og Harry Kane komu Englendingum áfram
Mynd: EPA
Ivan Schranz kom Slóvakíu yfir snemma leiks
Ivan Schranz kom Slóvakíu yfir snemma leiks
Mynd: EPA
Jude Bellingham fagnar jöfnunarmarki sínu undir lok leiks
Jude Bellingham fagnar jöfnunarmarki sínu undir lok leiks
Mynd: EPA
England 2 - 1 Slóvakía
0-1 Ivan Schranz ('25 )
1-1 Jude Bellingham ('90 )
2-1 Harry Kane ('91 )

Enska landsliðið er komið áfram í 8-liða úrslit Evrópumótsins eftir 2-1 sigur liðsins á Slóvakíu eftir framlengdan leik Veltins-leikvanginum í Gelsenkirchen í kvöld.

England spilaði illa í riðlakeppninni. Það vann ósannfærandi 1-0 sigur á Serbíu í fyrsta leik, áður en það gerði 1-1 jafntefli við Dani í öðrum leik riðilsins. Þá gerðu Englendingar markalaust jafntefli í lokaleiknum.

Í kvöld byrjuðu Englendingar leikinn á afturlöppunum. Slóvakía var mun líklegri aðilinn til að skora og kom það því engum á óvart þegar Ivan Schranz gerði sigurmark Slóvaka á 24. mínútu.

Varnarmönnum Englendinga hafði liðið afar óþægilega fram að markinu. David Strelec kom með sendinguna inn á Schranz sem skoraði örugglega framhjá Jordan Pickford í markinu. Þriðja mark hans í keppninni.

Í síðari hálfleiknum komu Englendingar öflugir til leiks. Phil Foden kom boltanum í netið á 51. mínútu leiksins. Harry Kane fann Kieran Trippier, sem kom honum á Foden og þaðan í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Fjórum mínútum síðar fékk Strelec gullið tækifæri til að skora magnað mark. Hann var í miðjuboganum og sá Pickford standa allt of framarlega, en sem betur fer fyrir Pickford þá fór boltinn framhjá markinu.

Englendingar fengu færin til að jafna leikinn. Harry Kane fór illa með dauðafæri og þá átti Declan Rice skot í stöng er hann lét vaða af 20 metra færi.

Allt stefndi í að stuðningsmenn Englendinga myndu endurupplifa svipaða tilfinningu og þegar England tapaði fyrir Íslandi, 2-1, í Nice á EM fyrir átta árum, en Jude Bellingham hélt þó ekki.

Englendingar fengu innkast sem var kastað inn í teiginn og á Marc Guehi. Hann skallaði hann aftur fyrir sig á Bellingham sem snéri bak í markið. Hann sá ekkert annað í stöðunni en að hlaða í bakfallsspyrnu, sem heppnaðist líka svona fullkomlega og söng boltinn í hægra horninu.

Bjargaði algerlega andlitið liðsins og kom Englendingum í framlengingu.

Þegar um það bil mínúta var liðin af framlengingunni gerði Harry Kane sigurmarkið með skalla eftir sendingu varamannsins Ivan Toney.

Eftir það fóru Englendingar aðeins að sitja aftur. Bellingham og Kane voru teknir af velli fyrir seinni hálfleik framlengingar og inn komu þeir Conor Gallagher og Ezri Konsa. Markmiðið að halda þetta út, sem þeir gerðu.

Frammistaðan langt í frá sannfærandi. Englendingar sluppu með skrekkinn gegn Slóvökum, en eru komnir áfram í 8-liða úrslitin þar sem þeir mæta Sviss.

Það verður allt annar leikur og ef enska landsliðið spilar eins og það gerði í kvöld þá getur það gleymt því að komast áfram í undanúrslit.


Athugasemdir
banner
banner
banner