Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
banner
   þri 02. júlí 2024 10:04
Elvar Geir Magnússon
Piers Morgan ánægður með sinn mann - „Cojones“
Ronaldo og Piers Morgan.
Ronaldo og Piers Morgan.
Mynd: X
Enn og aftur er Cristiano Ronaldo sá maður sem allir eru að tala um. Hann var í sviðsljósinu þegar Portúgal vann Slóveníu í vítakeppni í 16-liða úrslitum EM.

Ronaldo hefur gengið bölvanlega upp við mark andstæðingana á mótinu. Hann klúðraði vítaspyrnu í framlengingu gegn Slóvenum og brast í grát. Hann náði vopnum sínum fyrir vítakeppnina og skoraði þar í 3-0 sigri. Markvörðurinn Diogo Costa varði allar þrjár spyrnur Slóvena.

Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan er einn mesti Ronaldo aðdáandi heimsins og tók frægt viðtal við stórstjörnuna áður en hann yfirgaf Manchester United.

Morgan var auðvitað hæstánægður með sinn mann í gær og skrifaði einfalda færslu á X samfélagsmiðlinum strax eftir leik: "Cojones. #Ronaldo".

Stuttu seinna skrifaði hann aðra færslu með mynd af Ronaldo: „Aldrei efast um hann. Það er ástæða fyrir því að hann er sá besti í sögunni."

Morgan var ekki hættur og birti mynd af sér með Ronaldo og skrifaði við: "Hæ hatarar".

Ronaldo viðurkenndi í viðtölum eftir leikinn að þetta væri án nokkurs vafa hans síðasta Evrópumót og að tilfinningarnar hefðu borið sig ofurliði eftir vítaklúðrið. Portúgal mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum á föstudagskvöld.




Athugasemdir
banner
banner
banner