Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 10:46
Elvar Geir Magnússon
Kallað eftir því í Portúgal að Ronaldo sé bekkjaður
Á Roberto Martínez að setja Ronaldo á bekkinn?
Á Roberto Martínez að setja Ronaldo á bekkinn?
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Portúgalskir fjölmiðlar setja spurningamerki við það að Cristiano Ronaldo sé í byrjunarliði landsliðsins. Portúgal var næstum slegið út gegn Slóveníu í gær en tókst að vinna í vítakeppni.

Ronaldo hefur gengið bölvanlega upp við mark andstæðingana á Evrópumótinu. Hann klúðraði vítaspyrnu í framlengingu gegn Slóvenum og brast í grát. Hann náði vopnum sínum fyrir vítakeppnina og skoraði þar í 3-0 sigri.

Ronaldo, sem er 39 ára, hefur spilað í Sádi-Arabíu síðustu átján mánuði og virðist ekki ráða við hraðann á Evrópumótinu.

Portúgalska blaðið Publico segir að Ronaldo eigi að vera settur á varamannabekkinn og gefur honum falleinkunn, 4/10, fyrir frammistöðuna í gær.

„Önnur slök frammistaða frá fyrirliðanum. Var mikið í grasinu eins og í síðasta leik, þó ekki eins mikið," segir í umsögn um frammistöðu hans.

„Hann tók slakar ákvarðanir á mikilvægum tímapunktum, átti slakar sendingar og eyðilagði nokkrar sóknir. Þá var hann ónákvæmur í tilraunum sínum. Þá hefur honum vegnað illa í aukaspyrnum."

Rætt hefur verið um hvort leikmenn á borð Goncalo Ramos eða Diogo Jota eigi að koma í hans stað í byrjunarliðinu.

Ronaldo viðurkenndi í viðtölum eftir leikinn að þetta væri án nokkurs vafa hans síðasta Evrópumót og að tilfinningarnar hefðu borið sig ofurliði eftir vítaklúðrið. Portúgal mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum á föstudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner