Óskar Dagur Jónasson er búinn að framlengja samning sinn við knattspyrnudeild Fjölnis og gildir nýr samningur til þriggja ára.
Óskar Dagur er 19 ára gamall kantmaður sem hefur verið lykilmaður í 2. flokki undanfarin ár auk þess að eiga 3 mörk í 10 deildarleikjum með Vængjum Júpíters.
Óskar á einnig einn leik að baki fyrir meistaraflokk ÍBV þar sem hann kom við sögu í Bestu deildinni fyrir rétt rúmum tveimur árum síðan, í 3-2 tapi gegn ÍA.
Hann missti af síðasta sumri vegna erfiðra meiðsla og eru Fjölnismenn mjög spenntir fyrir þessum leikmanni.
„Óskar er gríðarlega teknískur leikmaður sem mun bæta við miklu í sóknarleik liðsins á komandi árum. Okkur í Fjölni hlakkar mikið til þess að sjá þennan öfluga leikmann láta ljós sitt skína á komandi árum í gulu treyjunni," segir meðal annars í tilkynningu frá Fjölni.
Óskar Dagur þykir afar efnilegur og fór meðal annars til Gautaborgar á reynslu 2021.
Athugasemdir