Ben Doak, ungur kantmaður Liverpool, virðist vera helsta skotmark Crystal Palace í janúarglugganum.
Liverpool hefur þegar hafnað tilboði frá félaginu í Doak en Palace ætlar að koma aftur með endurbætt tilboð. Sky Sports greinir frá.
Doak hefur verið að gera flotta hluti á láni hjá Middlesbrough í Championship deildinni og vakið athygli á sér. Palace vill kaupa hann en það vill Ipswich Town líka. Liverpool hefur hafnað tilboðum frá báðum félögum á síðustu dögum.
Doak er 19 ára gamall og hefur komið að 8 mörkum með beinum hætti í 21 leik með Middlesbrough. Liverpool hefur miklar mætur á Doak og hefur ekki áhuga á að selja táninginn, bara lána hann út.
Liverpool gæti þó selt leikmanninn með sérstöku ákvæði sem myndi tryggja félaginu endurkaupsrétt á honum.
Talið er að næsta tilboð Crystal Palace muni hljóða upp á meira heldur en 20 milljónir punda.
Doak er með 6 A-landsleiki að baki fyrir Skotland þrátt fyrir ungan aldur.
Palace er einnig að reyna við Jobe Bellingham, 19 ára miðjumann Sunderland sem kostar um 20 milljónir punda. Hann er yngri bróðir stórstjörnunnar Jude Bellingham.
Þar að auki er Palace að reyna að kaupa sóknarsinnaða miðjumanninn Romain Esse frá Millwall.
Athugasemdir