Nuno Espírito Santo þjálfari Nottingham Forest svaraði spurningum eftir 0-3 sigur á útivelli gegn Wolves í kvöld.
Forest er að reynast spútnik lið tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni og jafnaði Arsenal á stigum í 2. sæti deildarinnar með þessum sigri.
„Við spiluðum góðan leik, við vorum vel skipulagðir og nýttum færin okkar. Úlfarnir sköpuðu mikið af vandamálum fyrir okkur en Matz Sels var frábær og kom okkur til bjargar. Það ríkir gott sjálfstraust í hópnum sem er frábært að sjá," sagði Espirito Santo, en næsti deildarleikur Forest er gegn toppliði Liverpool.
„Við byrjum strax á morgun að einbeita okkur að næsta leik gegn Luton í bikarnum, hann kemur áður en við getum byrjað að hugsa um Liverpool."
Thomas Tuchel nýráðinn landsliðsþjálfari Englands var meðal áhorfenda á Molineux þar sem hann fylgdist með Morgan Gibbs-White, sem var valinn besti leikmaður vallarins af Sky Sports.
„Það eru margir leikmenn í hópnum okkar sem spila fyrir landsliðin sín og Morgan er einn þeirra. Metnaðurinn að spila fyrir landslið gerir fótboltamenn að betri leikmönnum. Það þarf að leggja gríðarlega mikla vinnu á sig til að komast í landslið og það er aðdáunarvert."
Espirito Santo neitaði þó að ræða um titilbaráttu eða Evrópubaráttu.
„Markmið tímabilsins? Ég hef alltaf sama markmið: að bæta leikmennina. Ef mér tekst að bæta leikmennina verður liðið betra og þá eru allir ánægðir."
Athugasemdir