PSG og Barcelona vilja Duran - Bayern vill Gyökeres - Juve vill Zirkzee og til í að láta Man Utd fá Vlahovic
   mán 06. janúar 2025 21:10
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Ótrúleg endurkoma AC Milan í úrslitaleik gegn Inter
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Inter 2 - 3 Milan
1-0 Lautaro Martinez ('45+1)
2-0 Mehdi Taremi ('47)
2-1 Theo Hernandez ('52)
2-2 Christian Pulisic ('80)
2-3 Tammy Abraham ('93)

Inter og AC Milan áttust við í úrslitaleik ítalska Ofurbikarsins í kvöld eftir að hafa sigrað gegn Atalanta og Juventus í undanúrslitum.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og skemmtilegur þó hann hafi verið nokkuð lokaður. Bæði lið mættu grimm til leiks og var ekki gefin tomma eftir, en Milan virtist örlítið hættulegri aðilinn.

Inter tókst að taka forystuna undir lok fyrri hálfleiks þegar Argentínumaðurinn knái Lautaro Martínez skoraði eftir vel útfærða skyndisókn. Hann mjög gerði vel að plata varnarmenn Milan til að koma sér í skotfæri.

Mehdi Taremi skoraði svo laglegt mark eftir sendingu yfir vörnina í upphafi síðari hálfleiks til að tvöfalda forystu Inter og þá var brekkan orðin brött fyrir Milan, en Theo Hernández svaraði fyrir sína menn með föstu og lágu skoti beint úr aukaspyrnu fimm mínútum síðar. Það er hægt að setja stórt spurningarmerki við Yann Sommer í markinu þar sem Theo skoraði með skoti í markmannshornið.

Staðan var þá orðin 2-1 og mikið líf komið í leikmenn Milan sem fundu fyrir auknu sjálfstrausti. Úr varð gríðarlega opinn og skemmtilegur seinni hálfleikur þar sem bæði lið voru vaðandi í færum, en það var Milan sem nýtti sín tækifæri betur.

Á 80. mínútu var Theo aftur á ferðinni. Hann brunaði upp vinstri kantinn og tókst að koma boltanum fyrir markið með lágri sendingu. Christian Pulisic náði fyrstur til boltans og gerði virkilega vel að taka á móti honum og hleypa skoti að marki með þrjá varnarmenn í sér og verandi úr jafnvægi.

Það var gríðarleg spenna á lokamínútunum og réðust úrslitin á 93. mínútu þegar Tammy Abraham setti boltann í netið eftir að hafa komið inn af bekknum. Abraham skoraði af stuttu færi eftir glæsilegan undirbúning frá Pulisic og Rafael Leao.

Lokatölur urðu 2-3 fyrir Milan sem er Ofurbikarmeistari á Ítalíu í ár eftir stórkostlega frammistöðu.

Frábær byrjun hjá Sergio Conceicao nýjum þjálfara Milan sem byrjar á sigrum gegn Juventus og Inter í Ofurbikarnum. Conceicao hætti sem þjálfari Porto síðasta sumar eftir sjö ár við stjórnvölinn þar og var ráðinn til Milan 30. desember.


Athugasemdir
banner
banner
banner