Sveindís Jane Jónsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg sem heimsótti Lyon í toppslag A-riðils í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í kvöld.
Sveindís lék allar 90 mínúturnar en mistókst að koma í veg fyrir 1-0 tap í nokkuð jafnri viðureign.
Danielle van de Donk skoraði eina mark leiksins á 81. mínútu og kom það gegn gangi síðari hálfleiksins þar sem Wolfsburg hafði verið sterkara liðið, eftir að Lyon var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
Lyon endar því riðlakeppnina með fullt hús stiga og fer Wolfsburg áfram í næstu umferð ásamt Frökkunum. Wolfsburg endar með 9 stig alveg eins og Roma, en þær þýsku eru með mun betri markatölu í innbyrðisviðureignum liðanna eftir að Sveindís skoraði fernu gegn Ítölunum og voru þær því öruggar áfram fyrir lokaumferðina.
Roma vann 3-0 sigur gegn Galatasaray í kvöld og mistekst að komast upp úr riðlinum.
Amanda Jacobsen Andradóttir var þá ekki í leikmannahópi FC Twente sem vann 3-0 sigur á Celtic. Amanda er líklegast að glíma við meiðsli þar sem hún hefur ekki verið í hóp í síðustu leikjum þrátt fyrir þau miklu gæði sem hún býr yfir.
Twente endar með 6 stig og kemst ekki upp úr sínum riðli, það eru stórveldin Real Madrid og Chelsea sem fara upp. Chelsea endar með fullt hús stiga eftir sigur í Madríd í dag.
Heimakonur í Madríd tóku forystuna snemma leiks með marki frá skosku landsliðskonunni Caroline Weir. Real leiddi 1-0 eftir jafnan fyrri hálfleik en Chelsea tókst að snúa stöðunni við með tveimur vítaspyrnumörkum í upphafi síðari hálfleiks.
Catarina Macario kom inn af bekknum í hálfleik fyrir Mayra Ramírez og skoraði úr vítaspyrnum á 51. og 56. mínútu.
Chelsea lokaði vörninni vel eftir að hafa tekið forystuna og tókst Madrídingum ekki gera jöfnunarmark þrátt fyrir mikið af tilraunum.
Lyon 1 - 0 Wolfsburg
1-0 Danielle van de Donk ('81)
Roma 3 - 0 Galatasaray
1-0 Alice Corelli ('9)
2-0 Rosanna Ventriglia ('82)
3-0 Elena Linari ('93)
Twente 3 - 0 Celtic
1-0 Kayleigh van Dooren ('20)
2-0 Kayleigh van Dooren ('34)
3-0 Natalie Ross ('43, sjálfsmark)
Real Madrid 1 - 2 Chelsea
1-0 Caroline Weir ('7)
1-1 Catarina Macario ('51, víti)
1-2 Catarina Macario ('56, víti)
Athugasemdir