Tottenham er búið að kaupa ungan kantmann frá Suður-Kóreu sem gæti orðið arftaki Son Heung-min hjá félaginu.
Sá heitir Yang Min-hyeok og er aðeins 18 ára gamall. Hann kemur úr röðum Gangwon FC sem endaði í öðru sæti K-deildarinnar í ár.
Yang var lykilmaður í liði Gangwon á árinu og kom að 18 mörkum í 38 deildarleikjum, þrátt fyrir ungan aldur.
Yang varð yngsti leikmaður sögunnar til að skora í K-deildinni þegar hann gerði sitt fyrsta mark fyrir Gangwon FC á upphafi árs, aðeins 17 ára gamall.
Yang er samningsbundinn Tottenham til 2030 og átti upprunalega að ganga til liðs við félagið í janúar, en Spurs ýtti eftir því að fá hann fyrr og náði því í gegn.
„Ég er mjög spenntur að ganga í raðir Tottenham, það væri mikill heiður fyrir mig að spila í liði með Son. Ég yrði mjög þakklátur fyrir það tækifæri," sagði Yang við fréttamenn á Incheon flugvellinum í Seoul.
„Það væri draumi líkast að spila samhliða Son, ég hef oft hugsað um það andartak. Ég get ekki beðið eftir að sýna hvað ég get gert. Vonandi fæ ég eitthvað tækifæri með aðalliðinu í vor. Mér líður eins og ég sé tilbúinn fyrir þetta stökk og er virkilega spenntur fyrir framhaldinu."
Athugasemdir