Þegar þessi frétt kemur inn er íslenska landsliðið á leið til Abu Dhabi þar sem leikinn verður vináttuleikur gegn Svíþjóð á þriðjudag. Ekki er um opinberan landsleikjadag að ræða og hópurinn því skipaður leikmönnum sem spila hér á landi og í Skandinavíu.
Það var millilent á Heathrow flugvellinum í dag og náðist Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar, í stutt spjall í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu FM 97,7 í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.
„Það verður geggjað að koma til Abu Dhabi, ég hef aldrei komið þangað. Leikmennirnir í hópnum ætla að nýta ferðina vel og reyna að sanna sig," segir Jóhann sem á dögunum var valinn íþróttamaður Garðabæjar fyrir árið 2013.
„Ég er mjög stoltur og hreykinn af því að hafa verið valinn. Það er mikið af góðu íþróttafólki hérna sem er að skara fram úr. Það er gaman að fá þessa viðurkenningu."
„Það er ekki leiðinleg byrjun á árinu að hafa verið valinn íþróttamaður Garðabæjar og fara svo til Abu Dhabi með landsliðinu, það er pressa á hina mánuðina að standa sig," segir Jóhann.
Leikurinn við Svíþjóð verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 16:00 á þriðjudag.
Athugasemdir