Claudio Ranieri tók við stjórn á AS Roma á dögunum og er það í þriðja sinn á ferlinum sem hann tekur við starfi aðalþjálfara félagsins.
Ranieri hefur alla tíð verið mikill stuðningsmaður Roma enda er hann fæddur og uppalinn í borginni og hóf ferilinn sinn sem atvinnumaður í fótbolta með liðinu.
Roma hefur gengið illa að undanförnu og gerði hinn 73 ára gamli Ranieri samning við félagið sem gildir út tímabilið.
„Ég er fyrst og fremst stuðningsmaður Roma og ég vil sjá hluti breytast hérna. Ég vil ekki sjá stuðningsmenn baula á leikmennina, það er engum til framdráttar. Þegar stuðningsmenn andstæðinganna baula á þig þá fyllist þú eldmóði, en þegar þínir eigin stuðningsmenn baula er það öðruvísi," sagði Ranieri.
„Stuðningsmenn eiga allan rétt á að vera óánægðir en þeir verða að vera í sama liði og leikmennirnir sínir. Það er mikilvægt verkefni hjá Roma, að sameina liðið aftur með stuðningsmönnum. Við erum allir partur af sömu fjölskyldunni.
„Það má ekki baula á leikmenn, við verðum að hjálpa þeim að spila vel. Baulið frekar á mig eftir lokaflautið, ég skal koma til ykkar eftir tapleiki og taka sökina á mig. En ekki gera það meðan leikurinn er í gangi. Það hjálpar engum nema andstæðingunum."
Ranieri hefur farið víðan völl í viðtölum eftir ráðninguna og tjáði hann sig meðal annars um liðsval forvera sins Ivan Juric.
„Ég er búinn að horfa á alla leiki Roma á tímabilinu og ég spyr sjálfan mig hvernig stendur á því að Mats Hummels er ekki að spila? Hvernig er það mögulegt?"
Hinn 35 ára gamli Hummels gekk til liðs við Roma í sumar en hefur aðeins spilað 23 mínútur fyrir félagið. Hann getur búist við fleiri tækifærum.
Roma er í tólfta sæti ítölsku deildarinnar með 13 stig eftir 12 fyrstu umferðir tímabilsins.
Athugasemdir