Fótboltasamband Kósóvó hefur fordæmt hegðun stuðningsmanna rúmenska landsliðsins í leik þjóðanna í Þjóðadeildinni í gær, en leikmenn Kósóvó gengu af velli þegar lítið var eftir af leiknum sem fór fram í Búkarest í Rúmeníu.
Stuðningsmenn Rúmeníu sungu níðsöngva í garð Kósóvó og köstuðu hörðum hlutum inn á völlinn.
Í uppbótartíma fengu leikmenn Kósóvó nóg og yfirgáfu völlinn í mótmælaskyni.
Staðan var markalaus í leiknum þegar Amir Rrahmani, fyrirliði Kósóvó, og Denis Alibec, leikmaður Rúmeníu, lentu í orðaskaki og í kjölfarið fóru stuðningsmenn rúmenska landsliðsins að syngja „Serbía, Serbía!“ og „Kósóvó er Serbía“.“
Kósóvó lýsti yfir einhliða sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 og hefur verið viðurkennt af meira en hundrað löndum, en ekki af Rúmeníu.
„Þetta er of mikið. Allir verða að vita það að Kósóvó er Kósóvó eða að Kósóvó sé Albanía. Þannig er það og málið útrætt,“ sagði Rrahmani eftir leikinn.
Leikmenn snéru ekki aftur á völlinn og gat leikurinn því ekki klárast, en UEFA hefur ekki tekið ákvörðun um framhaldið.
Fótboltasamband Kósóvó lýsti yfir miklum vonbrigðum með hegðun stuðningsmanna Rúmeníu og fulltrúa fótboltasambands Rúmeníu sem veittist að einum leikmanni Kósóvó stuttu eftir leikinn.
Sambandið er að undirbúa að senda inn kvörtun með öllum sönnunargögnum og ætlast þá til þess að UEFA bregðist við og komist að sanngjarnri niðurstöðu.
Kosovo players had to leave the pitch because of the Racist chants from Romanian fans.
— forblaugrana (@forblaugrana) November 15, 2024
This should stop. FIFA cannot allow this continue. pic.twitter.com/WbVnM2URem
Athugasemdir