Það fóru tveir leikir fram í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM í nótt, þar sem Úrúgvæ tók á móti Kólumbíu í hörkuslag.
Juan Quintero tók forystuna fyrir Kólumbíu í jöfnum fyrri hálfleik og leiddu gestirnir í leikhlé.
Heimamenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og tókst að snúa stöðunni við með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla.
Davinson Sanchez skoraði sjálfsmark á 57. mínútu, skömmu áður en Rodrigo Aguirre skoraði annað mark til að taka forystuna fyrir Úrúgvæ.
Úrúgvæjar gerðu vel að róa leikinn niður eftir að hafa tekið forystuna og virtust þeir vera að landa sigrinum þegar Carlos Gomez jafnaði metin á 96. mínútu.
Þetta leit út fyrir að vera dramatískt jöfnunarmark til að bjarga stigi fyrir Kólumbíu, en svo reyndist ekki. Manuel Ugarte, miðjumaður Manchester United, kom boltanum í netið á 101. mínútu til að tryggja sigurinn - eftir stoðsendingu frá Facundo Pellistri fyrrum leikmanni Man Utd.
Lokatölur urðu 3-2 og tókst Úrúgvæ að jafna Kólumbíu á stigum í öðru sæti undandeildarinnar. Þjóðirnar eiga þar 19 stig eftir 11 umferðir og eru á góðri leið með að tryggja sér þátttökurétt á HM 2026.
Darwin Núnez og Luis Díaz, leikmenn Liverpool, léku allan leikinn í dag rétt eins og Federico Valverde og Mathias Olivera, leikmenn Real Madrid og Napoli.
Perú og Síle gerðu þá markalaust jafntefli í botnslagnum. Síle hefur átt hrikalega undankeppni og vermir botnsæti deildarinnar með 6 stig eftir 11 umferðir, einu stigi minna heldur en Perú.
Heimamenn í Perú voru sterkari aðilinn en tókst ekki að skora þrátt fyrir að skapa mikið af færum. Perú er aðeins fimm stigum frá umspilssæti fyrir HM þrátt fyrir slakt gengi.
Úrúgvæ 3 - 2 Kólumbía
0-1 Juan Quintero ('37)
1-1 Davinson Sanchez, sjálfsmark ('57)
2-1 Rodrigo Aguirre ('60)
2-2 Carlos Andres Gomez ('96)
3-2 Manuel Ugarte ('101)
Perú 0 - 0 Síle
Athugasemdir